Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri, fór yfir 100 kílómetra múrinn um helgina á hlaupabrettinu í einleiknum Ég hleyp. Verkið fjallar um mann sem byrjar að hlaupa eftir barnsmissi. Gísli hleypur 10 til 12 kílómetra í hverri sýningu – meðal annars á lakkskóm.
„Þetta er algjört rugl, ég viðurkenni það,“ segir Gísli sem sýndi þrjár sýningar um helgina fyrir fullum sal. Fréttablaðið var á sýningunni á sunnudag þar sem áhorfendur stóðu upp og klöppuðu í lok sýningar og mátti sjá tár á hvarmi.
„Ég er alveg hlaðinn af orku eftir sýningar og er alveg rosalega lengi að ná mér niður. Fer í algjöra sæluvímu á eftir. Orkan frá salnum gefur mér innspýtingu sem er eiginlega alveg mögnuð upplifun. Ég hef ekki upplifað svona áður,“ segir Gísli.
Hann hleypur nánast án þess að stoppa á sviðinu í 80 mínútur. Allt frá rólegu joggi og upp í langa spretti á meðan hann fer með tilfinningaþrunginn texta. Á meðan sitja áhorfendur og finna til bæði með persónunni og leikaranum enda ekkert grín að hlaupa og fara með texta – hvað þá á harðahlaupum.
Það er ekki í boði að fá hlaupasting á miðri sýningu og missa þannig móðinn. Gísli segist hafa ætlað að fá ráð vegna hlaupanna og mataræðis fyrir slíka raun.
„Ég reyni að borða lítið fyrir sýningar en samt þannig að ég sé með orku á tanknum. Ég hef voða litla lyst bæði fyrir og eftir sýningu. Ég ætlaði að fá ráð frá hlaupara og tala við næringarfræðinginn en brann á tíma og endaði eiginlega bara á að djöflast í gegnum þetta.“
Gísli var mældur í aðdraganda sýningarinnar. Var púlsinn í kringum 200 slög á mínútu. Hlaupabrettið var þá með handrið og allt digital og var hann þá að fara í kringum 10 kílómetra. Nú er formið betra og hann er að klukka í 12 kílómetrana.
„Ég fæ núna tvo daga í frí og svo eru sýningar á fimmtudag og föstudag,“ segir Gísli. Eftir sýningu á fimmtudag verða umræður í samvinnu við Sorgarmiðstöðina.