Athafnamaðurinn Gísli Hauksson hefur verið ákærður fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni með ofbeldi á heimili þeirra í Reykjavík í maí árið 2020.

Í ákæru er Gísla gefið að sök að hafa ítrekað tekið hana kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og féll í gólfið. Í kjölfarið hafi hann, þegar brotaþoli hafi hörfað inn í herbergi, farið á eftir henni og ítrekað gripið um handleggi hennar og fleygt henni á rúm, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun og ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg auk margra yfirborðsáverka á hálsi, öxl og upphandlegg.

Er brotið talið varða við 1. málsgrein 218. greinar b í almennum hegningarlögum sem fjallar um brot í nánu sambandi.

Þess er krafist að Gísli verði dæmdur til refsingar en brotið varðar allt að sex ára fangelsi. Í ákæru er einnig getið um einkaréttarkröfu á hendur Gísla en brotaþoli krefur hann um þrjár milljónir í miskabætur.

Gísli Hauksson er annar stofnenda Gamma Capital Management en lét af störfum hjá félaginu árið 2018. Hann átti 30 prósenta hlut í félaginu þegar það var selt til Kviku banka fyrir 2,4 milljarða sumarið 2018. Hann mun þá hafa fengið hundruð milljóna króna fyrir hlut sinn í félaginu.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessum mánuði.