Gísli Hauks­son, at­hafna­maður sem kenndur er við Gamma, var dæmdur í tveggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi í Héraðs­dómi Reykja­víkur í dag fyrir brot í nánu sam­bandi. Þá er hann auk þess dæmdur til að greiða brota­þola 500 þúsund í miska­bætur ásamt vöxtum frá 14 maí til dagsins í dag.


Brotaþoli mætti við dómsuppsögu en hún hafði gert kröfu um þriggja milljóna króna bætur með vöxtum.

Sak­sóknari í máli Gísla lagði til sex­tíu daga skil­orð til refsingar eftir að Gísli játaði brotið fyrir Héraðs­dómi á þriðju­daginn síðast­liðinn. Í ákærunni krafði miskaþoli Gísla um þrjár milljónir í miskabætur.

Brotið telst varða við fyrstu máls­grein 218. greinar b í al­mennum hegningar­lögum um brot í nánu sam­bandi og varðar allt að sex ára fangelsi.

Greinin hljóðar svo: „Hver sem endur­tekið eða á al­var­legan hátt ógnar lífi, heilsu eða vel­ferð nú­verandi eða fyrr­verandi maka síns eða sam­búðar­aðila, niðja síns eða niðja nú­verandi eða fyrr­verandi maka síns eða sam­búðar­aðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans um­sjá, með of­beldi, hótunum, frelsis­sviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Skýlaus játning til refsimildunar

Sam­kvæmt Huldu Elsu Björg­vins­dóttir, svið­stjóra á­kæru­sviðs Lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu, var farið yfir dóma­fram­kvæmd í sam­bæri­legum málum með hlið­sjón að at­riðum sem gætu haft á­hrif á refsingu. Nefnir hún til dæmis að ský­laus játning Gísla á brotinu hafi á­hrif til refsimildunar.

Í á­kærunni gegn Gísla segir að hann hafi í­trekað tekið fyrr­verandi sam­býlis­konu sína kverka­taki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andar­drátt og féll í gólfið. Þegar hún reyndi að flýja inn í her­bergi er hann sagður hafa farið á eftir henni, gripið í­trekað í hand­leggi hennar og fleygt henni í rúmið.

Við á­rásina hlaut brota­þoli tognun og of­reynslu á háls­hrygg og brjóst­hrygg auk margra yfir­borðs­á­verka á hálsi, öxl og upp­hand­legg.