Byssumaðurinn sem tók fjóra einstaklinga í gíslingu í bænahúsi gyðinga í Texas í gær var breskur ríkisborgari. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Bandaríska alríkislögreglan réðst inn í bænahúsið í nótt, tíu tímum eftir að maðurinn tók fjóra einstaklinga í gíslingu. Samkvæmt lögreglu er gíslatökumaðurinn látinn en lögreglan hefur ekki gefið upp hvernig dauða hans bar að.
Skömmu áður en sérsveit lögreglumanna réðst inn í húsið heyrðist hávær hvellur út bænahúsinu og eitthvað sem líktist skothríð.
Allir gíslarnir eru lausir og heilir á húfi.
Borgaraþjónustu Bretlands var tilkynnt um andlát mannsins samkvæmt BBC og hefur hún verið í sambandi við lögregluyfirvöld i Texas vegna málsins.
Ekkert hefur verið gefið út um hver maðurinn er annað en þjóðerni hans en hann krafðist frelsunar Aafia Siddiwui, fyrrverandi taugavísindamanns af pakistönskum ættum sem er tengdur Al-Kaída og situr í fangelsi fyrir að reyna myrða bandaríska hermenn í Afganistan.