Sjaldan hafa jafn margar stoðir lent í vandræðum og núna og gildir það um allan heiminn. Þetta er ekki búið, það segja það allir sem vit hafa og er ljóst að við munum eiga við þessa veiru og afleiðingar hennar töluvert lengi til viðbótar. Við höfum upplifað okkur nokkuð örugg undanfarin ár og treyst á það að geta haldið ýmsum sjúkdómum í skefjum, þá ekki síst smitsjúkdómum sem í gegnum tíðina hafa valdið miklum usla.


Fólk sem lifir í bómull

Í dag erum við með bólusetningar við mörgum þessara sjúkdóma og í heilsu- og forvarnarskyni höfum við náð gífurlegum árangri á heimsvísu og meira að segja útrýmt, eða því sem næst, fjölmörgum slíkum ógnum. Það er því algerlega óskiljanlegt þegar fólk fer með fleipur og af þekkingarleysi gagnrýnir þá nálgun að bólusetja. Það lifir í bómull um það að ekki neitt illt geti hent það sjálft eða börnin þess og jafnvel að bólusetningar almennt séu skaðlegar.


Mikill misskilningur er þar á ferð og sannast einmitt í faraldri sem þessum sem við glímum við núna hvað markvissar bólusetningar hafa skilað okkur gríðarlegum framförum og bjargað milljónum mannslífa tengt þeim sjúkdómum sem hafa herjað á mannkyn í gegnum tíðina.

Líftími bóluefna mismunandi


Sjúkdómar líkt og mislingar, barnaveiki, kíghósti, mænusótt, stífkrampi og heilahimnubólga eru hluti af þeim alvarlegu sem við hindrum með bólusetningum barna hérlendis líkt og víðast annars staðar. Það eru fjölmargir aðrir sjúkdómar sem við getum varast með þessum sama hætti og má þar nefna lifrarbólgu, gulusótt, heilabólgu og taugaveiki svo dæmi séu tekin.

Það er því augljóst að ef við ættum ekki tæknina til að geta þróað og framleitt bóluefni sem nokkuð örugglega verja okkur gegn þessum vágestum værum við í býsna slæmum málum. Líftími bóluefna er mismunandi hvað varðar þá vörn sem þau veita og getur þurft að bólusetja aftur og aftur. Margir sjúkdómar sem falla undir sama flokkinn eru í raun talsvert frábrugðnir ár frá ári og þurfa reglulega bólusetningu, frægasta dæmið hér er auðvitað inflúensan.

Teitur segir það óskiljanlegt að fólk gagnrýni þá nálgun að bólusetja enda höfum við náð að koma í veg fyrir fjölmarga alvarlega sjúkdóma með þeim. Fréttablaðið/Ernir

Verjum þá veikustu


Við verjum alla jafna þá sem veikastir eru og hafa lítið mótstöðuafl, unga sem aldna og hina allt þar á milli. Við verjum líka hrausta einstaklinga og ferðamenn þannig að þeir geti með öruggum hætti farið á milli svæða sem bera með sér þær hættur í umhverfi sem bólusett er gegn. Sumir þessara sjúkdóma eru bundnir við ákveðin skilyrði, heimshluta og svo framvegis en með breyttum venjum nútímamannsins er hægt að dreifa þeim hratt um heiminn og valda þannig usla líkt og við sjáum núna.


Langt í land


Fræg kórónaveira sem geisar er dæmi um nýjan sjúkdóm sem við þekkjum ekki fram til þessa og enginn hefur mótstöðuafl gegn. Eina leiðin til varnar er líklega að sýkjast og læknast af honum með öllu því flækjustigi og áhættu sem við höfum fylgst með undanfarið, eða með einhvers konar forvörn eins og bóluefni eða virkri meðferð.


Þar sem við þekkjum sjúkdóminn ekki nægjanlega vel og erum að læra núna mjög hratt eigum við fá úrræði nema þau gömlu í bókinni sem eru að halda okkur í fjarlægð hvert frá öðru og þvo og spritta hendur. Við munum sigrast á þessum vágesti líkt og öllum hinum en það er langt í land með bóluefni og virkar meðferðir sem skila okkur til baka því öryggi sem við þekktum í nóvember á síðasta ári. Það er ekki lengra síðan téð veira sneri heiminum á hvolf og hefur ekki sleppt takinu enn.


Lítill ósýnilegur vágestur


Allar þær aðferðir sem við notum í baráttunni og gagnast eru mikils virði, bólusetning er líkleg til að verða ein af þeim. Allir þeir sem núna horfa upp á heiminn og þann vanda sem hann er kominn í vegna einnar lítillar ósýnilegrar veiru ættu að vera farnir að skilja mikilvægi bólusetninga og framþróunar í heilbrigðisvísindum og hætta að sá óvissu og hræðsluáróðri gegn jafn mikilvægri vörn og þær eru og hafa verið.