Gosið í Geldingadölum lætur vita af sér eftir nokkra klukkutíma ró. Á öllum helstu vefmyndavélum má sjá hraungusur flæða upp úr gígnum og mynda nýjar hrauntungur.

Veðurstofa Íslands benti á að að órói við Fagradalsfjall hefði minnkað töluvert upp úr hádegi í dag. Svipaðar sveiflur mældust þann 29. júní áður en aukinn kraftur færðist á ný í rennslið.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í Fréttavakt Hringbrautar í kvöld að nóg væri á tanknum undir gosstöðvunum á Reykjanesskaga. „Við erum að tala um hraun sem mun þekja ansi stórt svæði. Þá verður komið nýtt myndarlegt fjall á Reykjanesskaga,“ sagði Þorvaldur.