Orku­veitan Pa­cific Gas and Electric (PG&E) hefur nú lokað fyrir raf­magn á stóru svæði í Kali­forníu-fylki Banda­ríkjanna vegna mögu­legra skógar­elda en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Átta hundruð þúsund heimili, fyrir­tæki og aðrar lóðir eru nú, eða verða brátt, án alls raf­magns en mögu­legt er að raf­magnið komi ekki aftur á fyrr en eftir nokkra daga.

Orku­veitan tók á­kvörðun um að taka raf­magn af svæðinu eftir að spáð var miklum vindi og er ætlað að koma í veg fyrir að eldar kvikni út frá föllnum raf­línum. Upp­tök mann­skæðustu skógar­elda Banda­ríkjanna í Kali­forníu-ríki, sem áttu sér stað í fyrra, mátti rekja fallinna raf­lína orku­veitunnar.

Nauð­syn­legar að­gerðir

Að sögn tals­manns PG&E hafa síðast­liðin tvö ár verið tals­vert verri en áður en auk raf­magns­leysisins eru fjöl­margar að­gerðir í gangi til að berjast gegn skógar­eldum. Raf­magns­leysi hefur verið notað síðast­liðið ár til að koma í veg fyrir skógar­elda en aldrei af þessari stærðar­gráðu.

Raf­magns­leysið mun koma til með að hafa á­hrif á íbúa í þrjá­tíu sýslum í Kali­forníu en PG&E segja að­gerðirnar vera nauð­syn­legar þrátt fyrir mót­mæli íbúa. Orku­veitan hefur opnað 28 úr­ræða­mið­stöðvar á svæðinu þar sem í­búar geta hlaðið raf­tæki, notað salerni og fengið vatn.