Hin breska Ghislaine Maxwell hlaut í dag tuttugu ára fangelsisdóm fyrir kyn­lífsman­sal, en hún var ein helsta samstarfskona bandaríska kaupsýslumannsins Jeffrey Epstein. Í desember var hún sakfelld í fimm á­kæru­liðum af sex, en sjálfur dómurinn yfir henni var kveðinn upp rétt í þessu í New York.

Frá dómnum verða tvö ár dregin frá vegna þess að Maxwell hefur nú þegar eytt tveimur árum í fangelsi. Þá mun eiga möguleika á reynslulausn.

Auk þess var Maxwell dæmd til að greiða 750 þúsund dollara sekt, sem jafngildir tæplega hundrað milljón krónum, umrædd fjárhæð var hámarkið samkvæmt lögunum.

Dómurinn er talsvert lægri en einhverjir höfðu búist við, en breski miðillinn The Guardian sagði fyrr í dag að búast mætti við því að Maxwell myndi fá þrjátíu til 55 ára langan dóm. Við dómsuppkvaðningu tók dómarinn fram að verið væri að dæma Maxwell, en ekki Epstein.

Maxwell var dæmd fyrir að hafa lagt á ráð með Jef­frey Ep­stein um að lokka stúlkur undir lög­aldri í kyn­lífsman­sal, flytja þær á milli landa og brjóta á þeim kyn­ferðis­lega. Ákæruliðurinn sem hún var sýknuð í varðaði kyn­lífsman­sal á stúlku undir lög­aldri.

„Maxwell var fullorðin kona sem ákvað í hverri viki, í mörg ár, að fremja glæpi með Jeffrey Epstein, að vera hans hægri hönd, að gera glæpina hans mögulega. Þær ákvarðanir voru hennar eigin og þær verða að hafa alvarlegar afleiðingar,“ sagði Alison Moe, saksóknarinn í málinu, en hún fékk að tjá sig áður en dómurinn var kveðinn upp í dag.

„Gjörðir hennar sýna fram á óhugnanlega heimssýn. Hún leit svo á að í heiminum væru tvenns konar manneskjur - Þær sem skiptu máli og þær sem hægt væri að notfæra sér,“ sagði Moe og bætti við „Hún á skilið að eyða áratugum í fangelsi,“

Opnaði hurðina að helvíti

Þá fengu þolendur í málinu að lesa yfirlýsingar áður en dómurinn var kveðinn upp. „Ég hefði aldrei hitt Jeffrey Epstein ef það væri ekki fyrir þig,“ sagði í einni slíkri yfirlýsingu sem lögmaður las upp fyrir skjólstæðing sinn. Þar var því haldið fram að Maxwell hefði „opnað hurðina að einskonar helvíti,“

Þá var tekið undir orð Moe um að Maxwell ætti skilið að eyða löngum tíma í fangelsi. „Þú átt skilið að eyða restinni af lífi þínu í fangaklefa, [...] Þú átt skilið að vera föst í búri,“

Annar þolandi Epstein og Maxwell lýsti flóttatilraun sinni frá Epstein-eyjunni svokölluðu, en hún segist hafa stokkið af bjargsbrún í vatn uppfullt af hákörlum og sagði að það hafi verið ómögulegt að flýja eyjuna. „Ég vakna oft í svitabaði vegna martraða þar sem ég þarf að endurlifa þessa ömurlegu upplifun,“

Maxwell tjáði sig

Hingað til hefur Maxwell haldið fram sakleysi sínu, en í dag ávarpaði hún dómssalinn. „Það er erfitt fyrir mig að tjá mig eftir að hafa hlustað á sársaukann og þjáninguna sem lýst hefur verið í yfirlýsingum ykkar í dag.“ sagði hún og bætti við að sér þætti að Epstein hafi átt sökina.

„Jeff Epstein ætti að vera hérna að tjá sig fyrir framan ykkur, [...] Til ykkar þolendanna get ég einungis sagt að mér þykir miður fyrir því hvað þið þurftuð að kveljast mikið,“

Þá sagðist hún vonast til þess að dagurinn í dag sæi til þess að málinu gæti endanlega lokið. „Ég vona að þið sem tjáðuð ykkur hér í dag, og þið sem gerðuð það ekki, megi þessi dagur hjálpa ykkur að ferðast úr myrkrinu yfir í ljósið.

Maxwell var dæmd í fimm af sex ákæruliðum. Sjálf neitaði hún sök.
Fréttablaðið/Getty Images

Epstein var handtekinn árið 2019 vegna gruns um kynlífmansal, en gríðarlegur fjöldi kvenna hefur sakað hann um kynferðisbrot. Sama ár lét hann lífið í fangaklefa, en dauðsfallið er opniberlega skráð sem sjálfsvíg en sú niðurstaða er umdeild og gríðarlega margar samsæriskenningar til er varða málið.

Maxwell og Epstein voru tengd í margar valdaklíkur og þekktu margt valdamesta fólk heims. Þar mætti nefna bandaríkjaforsetana Bill Clinton og Donald Trump, sem og Andrés Bretaprins.

Donald og Melania Trump ásamt þeim Jef­frey Ep­stein og Ghislaine Maxwell.
Fréttablaðið/Getty Images

„Glæpir hennar þarfnast réttlætis“

Verjendur Maxwell höfðu kallað eftir því að hún myndi fá vægan fangelsisdóm þar sem refsingin væri talsvert minni en tuttugu ára fangelsisdómur. Ástæðuna sögðu þeir vera að Maxwell hafi verið gerð að blóraböggli í máli Epstein. Auk þess hafa þeir viljað meina að hún hafi fengið mjög ósanngjarna meðferð og að líf hennar hafi verið eyðilagt áður en hún var sakfelld.

„Ghislaine Maxwell misnotaði ungar stúlkur kynferðislega í mörg ár. Það er erfitt að gera sér grein fyrir umfangi glæpa hennar og áhrifum þeirra. Glæpir hennar þarfnast réttlætis,“ sögðu sóknaraðilarnir í svari við kröfum verjendanna.