Ashraf Ghani, hinn útlægi fyrrum forseti Afganistans, liggur nú undir ásökunum um þjófnað úr ríkiskössum lands síns. Ghani flúði til Tadsíkistans á sunnudaginn, stuttu áður en Talíbanar hertóku Kabúl og náðu þannig völdum yfir Afganistan á ný. Var það afganska sendiráðið í Tadsíkistan sem bar fyrrum forsetann þessum sökum en starfsfólk þess bað alþjóðalögregluna Interpol að handtaka Ghani og tvo ráðgjafa hans, Hamdullah Mohib og Fazel Mahmood.

Fréttirnar af ásökununum birtust fyrst hjá rússneska ríkisfjölmiðlinum RIA Novosti. Níkíta Isjtsjenkó, talsmaður rússneska sendiráðsins í Kabúl, sagði Ghani hafa fyllt fjóra bíla af peningum úr ríkissjóði Afganistans og reynt að koma meiri peningum fyrir í þyrlu. Ekki hafi allt féð komist fyrir og því hafi hluti þess verið skilinn eftir á malbikinu við forsetahöllina. „Hruni stjórnarinnar má lýsa í sem stystu máli með flótta Ghani frá Afganistan,“ sagði Isjtsjenkó.

Mohammad Zahir Agbar, sendiherra Afganistans í Tadsíkistan, reiknar með því að Ghani hafi tekið andvirði 169 milljóna Bandaríkjadala með sér frá Afganistan. Þetta myndi jafngilda um 21 milljarði íslenskra króna. „Ég held að Ghani hafi verið búinn að gera samkomulag við Talíbana,“ sagði Agbar á blaðamannafundi. „Hann var þegar búinn að áætla svikráð. Hann skildi stuðningsmenn sína eftir og sveik afgönsku þjóðina.“

Samkvæmt grein Forbes hafa borist út myndir af starfsfólkinu í afganska sendiráðinu að taka niður myndir af Ashraf Ghani og setja í þeirra stað upp myndir af varaforsetanum Amrullah Saleh, sem segist nú vera réttmætur forseti Afganistans. Talið er að Saleh sé í felum ásamt stuðningsmönnum sínum í Panjshir-dalnum í Afganistan, sem er síðasta svæðið sem enn er ekki undir stjórn Talíbana.

Í viðtali við Aljazeera hafnaði Ghani, sem er nú í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, því afdráttarlaust að hafa tekið neina fjármuni með sér þegar hann flúði frá Afganistan. Sagðist hann hafa farið frá landinu til að koma í veg fyrir blóðsúrhellingar líkt og í Sýrlandi eða Jemen og hafi ekkert tekið með sér nema vesti og eitthvað af fötum. „Þessar ásakanir eru marklausar lygar. Þið getið jafnvel spurt tollverðina – þær eru haugalygi.“

Ghani sagðist vera að íhuga endurkomu til Afganistans og sagðist vonast til þess að viðræður fyrrum áhrifamanna gömlu stjórnarinnar við Talíbana muni bera ávöxt.