Búið er að bólu­setja um 10 prósent full­orðna ein­stak­linga gegn CO­VID-19 en í heildina hafa 30.780 ein­staklingar verið full­bólu­settir og er bólu­setning hafin hjá 45.785 ein­stak­lingum til við­bótar. Næstu vikur mun fjölga hratt í hópi bólu­settra þar sem fram­leiðslu­geta bólu­efna­fyrir­tækjanna hefur verið aukin.

Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir smit­sjúk­dóma­læknir, greindi frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að í ljósi aukinnar fram­leiðslu­getu verði hægt að bólu­setja hraðar hóp ein­stak­linga sem eru með undir­liggjandi á­hættu­þætti fyrir al­var­legri CO­VID-sýkingu. Þá fáum við skammta af AstraZene­ca bólu­efninu frá Norð­mönnum og verður því hægt að hraða bólu­setningu hjá ein­stak­lingum yfir 60 ára.

„Kerfið sem við notum til að halda utan um bólu­setningarnar er ekki full­komið, það komu í ljós ýmsir gallar enda var þetta kerfi sem þurfti að byggja frá grunni,“ sagði Kamilla á fundinum en hún vísaði til þess að ein­hverjir hafi fengið boð í bólu­setningu þrátt fyrir að röðin væri ekki komin að þeim.

Ekki aðeins farið eftir aldursröð

Þá munu þeir sem eru með undir­liggjandi sjúk­dóma einnig fá boð með sínum aldurs­hópi. Að sögn Kamillu eru tugir þúsunda í næstu for­gangs­hópum fyrir bólu­setningu og mun taka tíma að boða alla. Boðunin verður ekki al­farið eftir aldurs­röð heldur verður einnig litið til á­hættu­þátta hjá á­kveðnum ein­stak­lingum.

„Það er ekki endi­lega víst að ein­stak­lingur með sykur­sýki fái boð í dag þó að ein­hver annar með sykur­sýki hafa fengið boð í dag, því að sá fyrsti gæti einnig verið með aðra á­hættu­þætti,“ sagði Kamilla.

Bólusetning hafin hjá öllum fyrir lok júlí

Sam­kvæmt bólu­setningar­á­ætlun stjórn­valda verður fyrir lok maí búið að bólu­setja alla eldri en sex­tugt, ein­stak­linga með lang­vinna sjúk­dóma, og heil­brigðis­starfs­menn sem féllu ekki í fyrri for­gangs­hópa. Verið er að skoða það hvenær fjölskyldur og heimilisfólk alvarlegra veikra barna, sem geta sjálf ekki fengið bólusetningu, geta fengið bólusetningu.

Í lok júní er síðan miðað við að búið verði að bólu­setja starfs­fólk leik-, grunn-, og fram­halds­skóla og til­tekið starfs­fólk fé­lags- og vel­ferðar­þjónustu, og ein­stak­linga sem eru í fé­lags­lega- eða efna­hags­lega erfiðri stöðu. Fyrir lok júlí mun síðan bólu­setning hefjast hjá öllum öðrum.