Einstaklingar sem hafa fengið Covid-19 geta orðið smitberar aftur og er því mikilvægt að smitvarnir séu þær sömu óháð því hvort fólk sé með mótefni.

Nokkrar vangaveltur hafa verið um það hvort fólk sem hafi sýkst af Covid-19 þurfi að hafa áhyggjur af því að geta smitast aftur.

Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, segir í svari sínu á Vísindavefnum að hættan sé vissulega til staðar en margt bendi til þess að endursýkingar séu fátíðar.

Geta borið veiruna líkt og önnur óhreinindi

Sýkist fólk aftur geti það smitað aðra líkt og við fyrstu sýkingu. Sömuleiðis geti þeir sem sleppi við endursýkingu borið sýkinguna í aðra.

„Það er raunhæfur möguleiki að einstaklingur, sem hefur fengið COVID-19 og jafnað sig, geti borið veiruna á sér og borið til annarra eins og hver önnur óhreinindi. Hins vegar er ólíklegt að slíkur einstaklingur geti borið veiruna áfram með dropasmiti - nema um endursýkingu sé að ræða.“

Jón segir mikilvægt að hafa í huga að langvarandi ónæmi myndist ekki við allar sýkingar. Eðli ónæmissvars fari til dæmis eftir tegund veiru, tegund sýkingar og virkni ónæmiskerfisins hjá þeim sem sýkist hverju sinni.

Tilfelli endursýkinga staðfest víða um heim

Þrátt fyrir að takmörkuð þekking sé á nýju kórónuveirunni er talsvert vitað um aðrar kórónuveirur, meðal annars vegna faraldra SARS og MERS en einnig vegna kórónuveira sem valda helst kvefi.

„Einn eiginleiki kórónuveira er hætta á endursýkingum - hægt er að endursýkjast af kórónuveirum þrátt fyrir fyrri sýkingar og meira að segja þrátt fyrir mælanleg mótefni í blóði.“

Jón segir að tilfelli Covid-19 endursýkinga hafi verið staðfest um allan heim. Þó séu þessar endursýkingar fátíðar miðað við fjölda allra tilfella sem bendi til að endursýkingar séu sjaldgæfar.

Þá hafi rannsóknir á kvefkórónuveirum bent til þess að hætta á endursýkingu aukist með tíma. Í tilfelli kvefkórónuveira virðist hættan á endursýkingu koma fram einu til þremur árum eftir fyrstu sýkinguna.

Endursýkingar geti verið algengari en greint hefur verið frá

Þar sem ólíklegra er að fólk sem hafi greinst með Covid-19 fari aftur í sýnatöku er sá möguleiki til staðar að endursýkingar séu vangreindar.

„Þannig virðast endursýkingar vera fátíðar eins og er. Þær geta hins vegar átt sér stað og verða hugsanlega algengari þegar lengra líður frá fyrri sýkingu. Einnig mælir ekkert gegn því að einstaklingar sem endursýkjast geti smitað aðra, líkt og þekkist fyrir aðrar veirur.“

Jón bætir við að nákvæmlega hvað leiði til þess að sumir endursýkist sé ekki þekkt og þannig beri að hegða sér eins og allir geti fengið endursýkingu þar til annað kemur í ljós.

Þarf ekki að hafa mikla þýðingu fyrir virkni bóluefna

Þessi vitneskja útilokar hins vegar ekki að bólusetning gegn Covid-19 sé gagnleg.

„Markmið bóluefna er að mynda ónæmi gegn tilteknum sýkingarvaldi án þess að þurfa að valda sýkingu. Þetta er gjarnan gert með því að líkja eftir náttúrulegri sýkingu en það á ekki við um öll bóluefni - mörg bóluefni mynda sterkara, langvinnara ónæmi en náttúruleg sýking.“

Ef hætta á endursýkingum eykst með tíma sé einnig hægt að nota viðbótarskammta af bóluefni (e. booster) til að auka ónæmið aftur.