Fangelsismálastofnun ákvað í dag að  grípa tímabundið til ráðstafana til þess að draga úr líkum á dreifingu Covid-19 veiru í fangelsi landsins. Ferðir fanga úr fangelsum eru nú óheimilar. Á það við um dagsleyfi, vinnu/nám utan fangelsa og svo eru heimsóknir í fangelsi eru tímabundið felldar niður. Makaheimsóknir eru einnig með öllu bannaðar á tímabilinu.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að fangar hafi kvartað til Fangelsismálastofnunnar eftir að stofnunin ákvað tímabundið að loka fyrir heimsóknir gesta og ferðir fanga úr fangelsum af sóttvarnaástæðum.

„Já, við höfum fengið kvartanir en menn sýna þessu skilning upp að ákveðnu marki. Ég trúi því og treysti að þeir átti sig á því að við erum að hugsa um velferð þeirra og starfsmanna,“ segir Páll í samtali við Fréttablaðið.

„Við teljum það geta haft mjög alvarlegar afleiðingar ef veiran kemst inn í fangelsin eins og hefur sýnt sig í löndunum í kringum okkur þar hefur starfsemin orðið mjög erfið. Þeir hafa þurft að setja hópa saman og loka einingum og svo framvegis en við teljum okkur í stakk búinn að takast á við þetta núna,“ segir hann enn fremur.

Réttindamissir verður bættur

Páll segist vona að þetta ástand muni vara stutt og verður réttindamissir fanganna bættur.

„Þau réttindi sem fangar verða af meðan þetta ástand varir þeir munu fá þau réttindi bætt upp. Þannig ef menn verða af dagsleyfi fái þeir þá dagsleyfi í staðinn þegar þessu linnir og með sama móti og síðast,“ segir Páll.

Allir starfsmenn Fangelsismálastofnunnar hafa verið beðnir um að gæta að sóttvörnum auk þess sem fangelsin eru þrifin í upphafi og lok vaktar. Páll segir ástandið ekki vera komið á þann stað að þörf sé á að skipta starfsmannahópnum upp eins og var gert þegar neyðarstigið var hægt sé að grípa til þess ráðst ef það er nauðsynlegt.