„Ég tel mig vera fanga í eigin landi,“ segir Pétur Skinner, 63 ára ör­orku­líf­eyris­þegi, í sam­tali við Frétta­blaðið. Pétur gagn­rýnir skil­yrði Út­lendinga­stofnunar fyrir veitingu dvalar­leyfis, en reglurnar gera það að verkum að eigin­kona hans, Anne Eler 52 ára, fær ekki dvalar­leyfi hér á landi þó þau hafi verið gift í þrjú ár og saman í sjö ár.

Pétur hefur verið ör­yrki í hart­nær 19 ár og nema mánaðar­tekjur hans 250 þúsund krónum á mánuði. Út­lendinga­stofnun miðar lág­marks­fram­færslu við grunn­fjár­hæð fjár­hags­að­stoðar Reykja­víkur­borgar, en upp­hæðin fyrir hjón nemur rétt rúmum 340 þúsund krónum. Telur Út­lendinga­stofnun að tekjur Péturs séu ekki nægjan­legar til að fram­fleyta tveimur ein­stak­lingum.

Rétt­læta ekki ráðningu á út­lendingi

Anne og Pétur kynntust í heima­landi hennar, Filipps­eyjum, árið 2014 og gengu þau í hjóna­band fjórum árum síðar. Hún er lærður grunn­skóla­kennari og einnig lærð í um­önnun.

Að sögn Péturs hefur hann reynt að finna starf við hennar hæfi en enn sem komið er ekki haft erindi sem erfiði. Hefur hann til dæmis sótt um á hjúkrunar­heimilum og á Land­spítalanum fyrir hana en án árangurs. Hún getur dvalið hér á landi í þrjá mánuði í senn en þarf að fara úr landi að þeim tíma loknum.

Pétur og Anne gengu í hjónaband árið 2018.
Mynd/Úr einkasafni

„Ég hef haft sam­band við mörg fyrir­tæki og stofnanir hér til að fá hjálp við að „sponsa“ hana inn í landið og ráða hana í vinnu með engum árangri. Mér er sagt að það sé nægi­legt vinnu­afl í landinu sem stendur og að þau geti ekki rétt­lætt það að ráða út­lending,“ segir Pétur og bætir við að Anne tali á­gæta ensku og sé þegar byrjuð að læra ís­lensku.

Sá hana síðast fyrir þremur mánuðum

Pétur hefur vissu­lega mögu­leika á að dvelja á Filipps­eyjum hjá eigin­konu sinni, en hann vill ekki hætta á að vera þar of lengi svo að hann missi ekki bæturnar frá Trygginga­stofnun.

Pétur kom heim frá Filipps­eyjum þann 10. febrúar síðast­liðinn og eru því liðnir þrír mánuðir frá því að hann sá eigin­konu sína síðast. Hann getur dvalið í landinu í þrjú ár að há­marki en þarf að skrá sig á skrif­stofu inn­flytj­enda einu sinni í mánuði.

Sendir henni hluta af sínum tekjum

Að ferðast til Filipps­eyja er kostnaðar­samt og vegna ör­orku sinnar á hann einnig erfitt með að ferðast langar vega­lengdir. Pétur segir að þar að auki sé varla búandi á Filipps­eyjum, en hann sendir eigin­konu sinni hluta af sínum tekjum þar sem hún er at­vinnu­laus vegna CO­VID-á­standsins í landinu.

Pétur segir að hann hafi enga mögu­leika á að auka sínar tekjur sem eru tölu­vert undir lág­marks­launum í landinu. „Mér er ekki gefinn kostur á því að fá mér ró­legt hluta­starf, ef ég gæti, til að hækka inn­komu mína að­eins vegna skerðinga hjá Trygginga­stofnun.“

Settur stóllinn fyrir dyrnar

Pétri finnst for­kastan­legt að eigin­kona ís­lensks ríkis­borgara megi ekki dvelja hér á landi til að leita sér að vinnu eins og hver annar borgari. „Mér finnst þetta vera ský­laust brot á mann­réttindum,“ segir hann. Það er aug­ljóst að hann saknar þess að hafa ekki eigin­konu sína sér við hlið.

„Ég þarf að hafa hana hjá mér, því það eru hlutir sem ég er hrein­lega ekki fær um að gera lengur. Ég starfaði í tuttugu ár sem húsa­smiður og er einnig lærður mat­reiðslu­maður en ég get ekki lengur nýtt mér réttindi mín né reynslu og kunn­áttu. Ég byrjaði að vinna í sveitinni tíu ára. Þannig að eftir fjöru­tíu ára vinnu er mér settur stóllinn fyrir dyrnar með að mega vera með konunni sem ég elska.“

Leggja ekki árar í bát

Pétur hefur marga fjöruna sopið á sínum 63 árum eins og að framan greinir. Hann háls­brotnaði í bíl­slysi árið 1995 og var heppinn að lamast ekki. Svo greindist hann með vefjagigt og ýmsan stoð­kerfis­vanda.

„Ég rak eigið fyrir­tæki í Sví­þjóð og einn daginn í há­deginu gat ég ekki staðið upp. Ég fór heim til Ís­lands og þá skelltu þeir mér á ör­orku. Síðan er komin slit­gigt og liða­gigt og svo fékk ég krabba­mein í hálsinn árið 2012. Þegar ég kom heim núna í febrúar þá fór ég í blóð­prufu og það er allur fjandinn í gangi sem ég þarf að láta at­huga. Ég hef bara ekki haft efni á því.“

Anne og Pétur hafa ekki lagt árar í bát og ætla þau í sam­einingu að freista þess að finna vinnu fyrir Önnu hér á landi svo hún geti sýnt fram á fram­færslu og dvalið hér ó­tíma­bundið. Kveðst Pétur vonast til þess að stjórn­völd líti til að­stæðna fólks og jafn­vel rýmki að­eins þær reglur sem eru í gildi.

„Mér finnst alla­vega að það ætti frekar að liðka fyrir því að fólk geti verið hér saman frekar en að setja okkur stólinn fyrir dyrnar.“

Viðtalið hefur verið uppfært.