Kaupmaður á Akureyri hefur staðið á búðargólfinu í 56 ár og stefnir að 14 árum til viðbótar í fatasölu. Klýfur fjöll þess á milli.

„Ég fór út í þennan bransa vegna þess að ung stúlka, Guðný, við vorum bara 14-15 ára, er dóttir Jóns M. Jónssonar sem stofnaði þessa búð,“ segir Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ á Akureyri, sem fagnaði 56 ára starfsafmæli í vikunni.

„Við Guðný urðum kærustupar og trúlofuðum okkur 1965, fyrir 56 árum. Tengdapabba vantaði strák í búðina og hann réði mig á stundinni. Ég hef ekki sloppið síðan,“ segir Ragnar.

Hann er 72 ára gamall og hefur reyndar ekki gert mikið til að sleppa úr búðinni heldur þvert á móti. Fyrir þremur árum tóku börn hans við fyrirtækinu. Þá slagaði Ragnar í sjötugt og börnunum fannst að komið væri nóg hjá honum. Eitt barnanna nefndi að hann ætti inni að minnsta kosti fimm ára sumarfrí.

„Ég gekk um götur bæjarins í nokkra mánuði, fór þvisvar á dag í líkamsrækt en mér bara hundleiddist,“ segir Ragnar.

„Þetta endaði með því að börnin sáu aumur á mér og sögðu: Heyrðu gamli, komdu þá og vertu hjá okkur hálfan daginn. Ég greip það tækifæri fegins hendi en auðvitað hefur þessi hálfi dagur þróast í það að nú kem ég fyrstur og fer síðastur eins og ég hef alltaf gert.“

Á léttu augnabliki í búðinni á níunda áratug síðustu aldar með samstarfsmönnum.
Mynd/Aðsend

Ragnar er þjóðkunnur fyrir útivistaráhuga sinn og þá ekki síst fjallaklifur. Hann segist leita upp í tindana nánast allar helgar nema í desember, þá sé of mikið að gera. Þá hjólar hann og lyftir í ræktinni. Hann segist mjög heppinn með heilsuna.

„Það er alltaf gaman í vinnunni vegna þess að ég hef endalaust gaman af því að umgangast fólk og er frekar geðgóður í búðinni, þótt ég segi sjálfur frá. Þjónustulundin átti strax mjög vel við mig, ég er ekki betri í neinu öðru en að þjóna fólki og spjalla við það.“

Um breytingarnar á ríflega hálfri öld í fatabransanum segir Ragnar að fyrir 56 árum hafi tengdapabbi hans rekið heljarstóra saumastofu þar sem tæplega 100 manneskjur á Akureyri, mest konur, unnu á vöktum. „Þær saumuðu gallabuxur, skyrtur og annað en nú er allt flutt inn.

Spurður hvenær hann ætli að hætta segist hann eiga eftir 28 ár.

„Helminginn af þeim tíma, næstu fjórtán árin, ætla ég að vera áfram í búðinni,“ svarar öldungurinn og skellihlær.