Guðbjörg Aðalsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Egilsstöðum, þarf að flytja fjölskyldu sína til Akureyrar yfir hátíðirnar í ár, en hún er barnshafandi en getur ekki fætt barnið sitt fyrir austan vegna þess að enginn skurðlæknir finnst til að vera á vakt.
Greint var í þessu í kvöldfréttum á Stöð 2 en þar sagði Guðbjörg málið vera svekkjandi. „Maður hefði bara viljað vera heima hjá sér. Við vorum líka ofboðslega ánægð með þjónustuna sem við fengum í Neskaupstað á fæðingardeildinni þar með eldri stelpuna og vildum endilega fá að fæða þar aftur,“ sagði Guðbjörg.
„Auðvitað vill maður bara fá að vera heima hjá sér eins lengi og maður getur. Ólétt kona vill bara fá að sofa í sínu rúmi og hafa sinn sófa til að hvíla sig í á milli,“ sagði hún.
Skurðlæknirinn á sjúkrahúsinu í Neskaupstað, sem er eini starfandi skurðlæknirinn, er í fríi og afleysingin brást. Barnshafandi konur voru látnar vita af forfalli læknisins en enn er reynt að fá afleysingu.
„Ég veit ekki hvar vandamálið er eða hvernig er hægt að breyta því, en þetta er náttúrulega eitthvað sem þarf að breytast. Við þurfum að hafa læknaþjónustu úti á landi og við þurfum að halda þessu opnu,“ segir Guðbjörg.