Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði á daglegum upplýsingafundi Almannavarna í dag að nánast væri mögulegt að fullyrða að toppnum á kórónaveirufaraldrinum væri náð hér á landi.

„Ef við leggjum mat á þennan faraldur held ég að við getum sagt það nokkurn veginn að við séum búin að ná toppnum eins og staðan er núna," sagði Þórólfur á fundinum í dag.

„Ef við miðum við að fjöldi þeirra sem batna er meir en nýgreindra, sem þýðir að R talan, sem er útbreiðslutalan, er komin undir 1, svo faraldurinn eins og staðan er núna er á niðurleið. Ljóst að ekki má lítið af bera og ef menn gæta ekki að sér getum við fengið aukningu. En getum glaðst yfir þeirri stöðu," sagði sóttvarnarlæknirinn enn fremur.

„Við þurfum hins vegar að fylgjast með framþróun þessa faraldurs og sjá hvað gerist. Við þurfum að vera vakandi fyrir staðbundnum sýkingum og grípa til ráðstafana ef þær koma upp. Svo er vinna í gangi um hvað gerist eftir 4. maí. Það verður tilkynnt seinna," sagði hann um framhaldið.