Íslenska ríkið á hættu að vera dæmt skaðabótaskylt á grundvelli hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og greiðslu skaðabóta ef ekki er staðið við skuldbindingar Parísarsáttmálans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta segir Snjólaug Árnadóttir, nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Líkt og greint var frá fyrr í vikunni er ekkert sem bendir til að Ísland muni ná markmiðinu að draga úr losun um einn tíunda hluta af 29 prósenta samdrætti ár hvert á tímabilinu 2021 til 2030. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði ljóst að Ísland og önnur ríki þurfi að grípa til hertra og frekari aðgerða.

Snjólaug segir að sem aðili að hafréttarsamningnum beri Íslandi skylda til að draga úr mengun hafsins. Ef ekki tekst að leysa úr ágreiningi þarf málið að fara fyrir dómstóla. Umhverfisverndarákvæði samningsins eru mörg hver opin, hefur þá verið litið til annarra samninga við túlkun þeirra. Vísar Snjólaug í Alan Boyle, einn fremsta fræðimann heims á sviði alþjóðlegs umhverfis- og hafréttar, sem hefur fært fyrir því rök að fyrrnefnd ákvæði hafréttarsamningsins megi túlka með hliðsjón af Parísarsamningnum.

„Það þýðir að losun gróðurhúsalofttegunda í hafrýmið og afleiðingar þess, svo sem hækkandi sjávarmál og súrnun sjávar, varði fyrrnefnd ákvæði og ríki geti gerst brotleg við hafréttarsamninginn ef þau grípa ekki til fullnægjandi aðgerða til að draga úr þessari mengun,“ segir hún.

Með tengingu Parísarsamningsins við sáttmálann er hætta á að Ísland, sem og fleiri ríki, verði dæmd brotleg ef þau uppfylla ekki skuldbindingar sínar. „Þau fá þá ekki bara ávítur eða vægar refsiaðgerðir heldur dóm sem er bindandi að þjóðarétti og slíkur dómur gæti jafnvel skyldað Ísland til greiðslu skaðabóta,“ segir Snjólaug. Vanúatú hefur þegar beðið um álit Alþjóðadómstólsins í Haag um skyldur ríkja til að bregðast við loftslagsbreytingum.

„Biðin eftir álitinu mun líklega taka einhver ár en í þessum efnum er þó ekki ráðlegt að bíða og vona það besta. Ísland þarf að grípa strax til aðgerða til að mæta þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Hinn valkosturinn gæti orðið dýrkeyptur.“

Snjólaug hefur einnig ritað ítarlega grein sem má lesa á frettabladid.is, þar varar hún við því að standa ekki við gefin fyrirheit.