„Það er hægt að segja núna að bylgjan er á góðri niðurleið," segir Þórólfur Guðnasson, sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Síðastliðinn sólarhring greindust fjögur ný kórónuveirusmit en helmingur var í sóttkví við greiningu. Færri sýni voru þó tekin í gær, eða um 700. Þórólfur hvetur alla til að fara í sýnatöku við minnstu einkenni. „Sýnataka er í raun og veru kjarninn í því sem við erum að gera og forsendan fyrir því að við höldum áfram að hafa tök á þessum faraldri."

Farið að létta á álagi

Þórólfur segir að það sé farið að hægja verulega á faraldrinum og að álag á sjúkrahúskerfinu fari minnkandi. Einstaklingum í einangrun fækkar sem og einstaklingum sem eru í sóttkví. „Við getum glaðst yfir þessum góða árangri og honum ber að þakka þann samtakamátt og samstöðu allra einstaklinga í þessu landi. Ég held að við getum séð sjá fram á að geta hægt og bítandi farið að létta einhverjum af þessum takmörkunum sem hafa verið í gangi undanfarnar vikur."

Jólin áhyggjuefni

Hann segist hafa áhyggjur af jólunum. Við eigum það til að gleyma okkar í aðdraganda jólanna og yfir jólahátíðina. Þá séu einnig miklar hópamyndanir á þessum tíma árs. Hann minnir fólk á að faraldurinn sem við erum að glíma við núna undanfarið hefur verið drifin áfram af hópamyndun, innan fjölskyldna, í vinahópum, ýmsum íþróttum og á vinnustöðum.

„Ég skora því á alla að fara mjög gætilega næstu vikurnar þannig að við fáum ekki mikið bakslag og þurfum aftur að grípa til íþyngjandi takmarkana."

Bóluefnin lofa góðu

Hann segir að á þessari stundu sé ekkert bóluefni í hendi við Covid-19 þó að fyrstu fréttir frá tveimur framleiðendum séu mjög ánægjulegar. „Við eigum eftir að sjá hvenær og hversu mikið af bóluefni við munum fá. Ég bind hins vegar vonir að við munum geta hafið bólusetningu á fyrri hluta næsta árs. Það er nú hafinn undirbúningur að því hvernig staðið verður að dreifingu bóluefnanna þegar að því kemur og hvernig bólusetningunni verður háttað."