Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, sat fyrir svörum í Pall­borðinu á Vísi í dag. Þar ræddi hann stöðu far­aldursins hér á landi og kross­göturnar sem þjóðin stendur nú á í bar­áttunni gegn kóróna­veirunni.

Kári sagði ís­lensku þjóðina vera komna yfir kross­götur í bar­áttunni gegn veirunni en ljóst sé að hjarðó­næmi hefði ekki verið náð fram með bólu­setningum.

„Við erum búin að komast að raun um að bólu­efnið sem átti bæði að koma í veg fyrir smit og koma í veg fyrir að þeir sem smituðust yrðu lasnir, virðist ekki virka mjög vel við að vernda gegn smiti, verndar hins vegar mjög vel við að verða illa lasinn ef menn smitast. Af­leiðingin af þessu er sú að við náum ekki neinu hjarðó­næmi með bólu­setningu einni saman, hjarðó­næmi kemur ekki til með að koma af öðru en að mjög stór hundraðs­hluti þjóðarinnar smitist,“ sagði Kári.

Hann sagði stöðuna vera þannig núna að það líti út fyrir að við munum sjá bylgju eftir bylgju af veirunni og mark­miðið yrði þá að sjá til þess að engin þessara bylgja verði svo stór að hún muni drekkja heil­brigðis­kerfinu.

Engin þjóð staðið sig jafn vel og Ís­lendingar

Kári sagðist telja Land­spítalann vera að höndla á­standið nokkuð vel og lofaði árangur Ís­lendinga í sótt­vörnum sem hann segir vera einn þann besta á heims­vísu.

„Það sem mér finnst vera kannski svo­lítill galli er að ég hefði viljað að við hefðum gefið fólkinu sem var bólu­sett af Jans­sen einn skammt í við­bót áður en að við slepptum öllum hömlum og ég vildi að það hefði verið búið til eitt­hvað á­þreifan­legt plan um það hvernig við höndlum elli­heimilin og sjúkra­stofnanir þegar kemur að því a vernda þá sem eru veikir fyrir,“ sagði Kári.

Hann telur að bar­áttan við veiruna muni halda á­fram alla­vega næstu tvö árin en hann býst ekki við því að Ís­lendingar muni þurfa að lifa við strangar sam­komu­tak­markanir.

„Þetta er öðru­vísi. Við erum ekki að horfa á pest sem við losum okkur við á skammri stundu, ég hugsa að við þurfum að bíða í upp undir tvö ár áður en þjóðin verður orðin það ónæm að við getum gleymt henni,“ sagði hann.

Að­spurður um hvort sú staða gæti aftur komið upp að grípa þyrfti til harðra sótt­varna­að­gerða sagði Kári að Ís­lendingar þurfi að vera á tánum.

„Nei, ég held því fram að við þurfum að vera á tánum og fylgjast vel með hversu margir liggja inni á Land­spítala, hversu marga fleiri getum við tekið inn, hversu margir eru á gjör­gæslu­deild, hversu margir eru öndunar­vélum og svo fram­vegis.“

Óbólu­settir aldrei verið í meiri hættu

Þá sagði Kári ljóst að allt önnur staða sé komin upp nú þegar ljóst er að al­var­leg veikindi eru mjög sjald­gæf hjá bólu­settum.

„Nú er orðið alveg ljóst að bólu­setningin, hún ver okkur mjög vel gegn al­var­legum sjúk­dómi. Yfir 95 prósent þeirra sem smitast sem eru bólu­settir sleppa við al­var­legan las­leika og yfir 90 prósent sleppa al­gjör­lega við las­leika. Þannig að þá erum við í öðru á­standi,“ sagði hann.

Kári sagði óbólu­setta aldrei hafa verið í meiri hættu gagn­vart kórónu­veirunni en í dag en margir eru sýktir í sam­fé­laginu án þess að vita af því.

„Ég held til dæmis að þegar kemur að þeim óbólu­settu í ís­lensku sam­fé­lagi, fólk sem hefur tekið þá að mörgu leyti hug­rökku á­kvörðun, að láta ekki bólu­setja sig, það verður að benda þeim á að þau hafa aldrei verið í meiri hættu núna. Veiran er svo víða í kringum þau og það sem meira er, þeir sem eru smitaðir af veirunni hafa miklu minni ein­kenni þannig að þeir vita aldrei hve­nær þeir eiga sam­skipti við smitaðan mann eða ekki.“

Ó­sómi lík­legri til að ganga fram af sér heldur en veiran

Kári var spurður að því í lokin hverju veiran hefði breytt í hans per­sónu­lega lífi og hvort hann væri hræddur um að gera eitt­hvað á borð við það að fara í ræktina.

„Áður en ég var bólu­settur þá var ég tregari til þess að fara í ræktina. Þá hreyfði ég mig meira heima hjá mér en nú þá fer ég í ræktina eins oft og ég hef tæki­færi til. Reyni að fara á hverjum degi. Bara vegna þess ó­sköp ein­fald­lega að ef ég væri hand­viss um að eftir nokkra mánuði þá væri veiran horfin þá myndi ég kannski bíða í þrjá mánuði áður en ég færi en bara það er ekkert val lengur. Þessi veira verður hérna með okkur.“

Að­spurður um hvort hann væri ekkert hræddur um að veiran gæti hrein­lega bara farið með hann sagði Kári:

„Nei ég held að alls konar ó­sómi og hegðunar­vandi minn sé mun lík­legri til að ganga fram af mér heldur en þessi veira. Nei, maður ræður ekkert slíku, maður verður bara að halda á­fram að lifa sínu lífi. Ég held að bólu­sett fólk geti verið til­tölu­lega ró­legt gagn­vart þessari veiru, óbólu­settir ættu að passa sig. Þó að ég vilji alls ekki setja tak­mörk á hegðun óbólu­setts fólks þá vil ég ráð­leggja þeim að fara mjög var­lega í dag því veiran er mun víðar í sam­fé­laginu heldur en nokkru sinni áður.“