Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn segir ljóst að nú­verandi bylgju far­aldursins muni ekki ljúka í ágúst líkt og margir bundu vonir við en tölu­verður fjöldi fólks greinist nú dag­lega. Enn á eftir að koma í ljós hvort að þær að­gerðir sem gripið var til fyrir rúmri viku, það er 200 manna sam­komu­bann, eins metra regla og grímu­skylda, hafi borið árangur.

„Ef við skoðum til dæmis bara þriðju bylgjuna þar sem þetta voru ein­hverjir mánuðir sem að við vorum að fást við þá bylgju, þá er alveg ljóst að þetta er ekkert að klárast núna í ágúst,“ segur Víðir í sam­tali við Frétta­blaðið og segist ekki bjart­sýnn á að toppnum í þessari bylgju hafi verið náð.

Líta til reynslu annarra landa

Að sögn Víðis eru alls konar að­gerðir til að hefta út­breiðslu veirunnar til skoðunar að svo stöddu. „Ég held að það sé opið fyrir allar hug­myndir, við erum búin að vera að sanka að okkur upp­lýsingum um hvað aðrir hafa verið að gera,“ segir Víðir.

Meðal annars vísar Víðir til til­rauna, líkt og gert var á Spáni með stóra tón­leika þar sem allir voru prófaðir fyrir, og mis­munandi kerfa, til að mynda í Dan­mörku þar sem fólk þarf að fram­vísa nei­kvæðu hrað­prófi til að komast að á ýmsum stöðum.

„Þetta er eitt af því sem þarf að vera inni í menginu okkar þegar við erum að skoða hvernig við höldum á­fram næstu mánuði, og við þurfum líka að skoða getuna okkar, við erum svo lítið sam­fé­lag með lítið heil­berigðis­kerfi að getan er oft það sem er svona tak­markandi þáttur,“ segir Víðir.

Kominn tími til að stjórnvöld taki við

Að minnsta kosti 108 manns greindust með veiruna innan­lands í gær og segir Víðir við­búið að tölurnar verði sam­bæri­legar næstu daga. Þá á eftir að skýrast hversu margir muni veikjast al­var­lega á næstunni en eldri ein­staklingar eru nú að greinast í meiri mæli.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir greindi frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að það sé á­stæða til þess að hafa á á­hyggjur af stöðu mála en sagðist telja tíma­bært að stjórn­völd grípi til að­gerða og að hann leggi þær ekki endi­lega til.

„Við vitum hvað virkar og hvað ekki og ég held það sé núna stjórn­valda að taka á­kvörðun um það að gefnu á­hættu­mati og út­liti, hvort stjórn­völd eru til­búin til að grípa til harðra að­gerða til að kveða bylgjuna hérna niður eða ekki,“ sagði Þór­ólfur í dag.