Ríkisstjórnin ákvað í morgun að stefna að því að þeir sem komi til landsins, bæði erlendir ferðamenn sem og Íslendingar, geti valið um að fara í skimun fyrir COVID-19 á Keflavíkurflugvelli í stað þess að fara í sóttkví en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag.

Breytingin tekur gildi eigi síðar en 15. júní næstkomandi en einnig verða tekin til greina nýleg vottirð um sýnatöku erlendis svo lengi sem vottorðið er talið gilt af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Þá verður fólk beðið um að hlaða niður smitrakningarforritinu og uppfylla önnur skilyrði sóttvarnalæknis. Fyrirkomulagið verður síðan metið þegar tveggja vikna reynsla er komin á það.

„Við fögnum því láni núna að hér hefur ekki greinst neitt smit undanfarna fimm daga en við erum líka að fylgjast með þróun faraldursins í löndunum í kringum okkur og sjáum til að mynda að það eru bylgjur að koma upp aftur, til að mynda ef litið er til Þýskalands og Suður Kóreu, þannig að við vitum að heimsbyggðin er ekki laus við þessa veiru,“ sagði Katrín á fundinum og bætti við að tillögurnar væru háðar góðu gengi hér á landi.

Unnið að afléttingu takmarkanna

Þá hafa einnig nýjar reglur verið settar um sóttkví sem taka gildi á föstudaginn, 15. maí, þar sem reglur um sóttkví B verða útvíkkaðar. Reglurnar munu þannig ná til þeirra sem koma til landsins til að starfa í afmörkuðum verkefnum, til að mynda vísindamenn, kvikmyndatökumenn, fréttamenn, og íþróttalið. Sóttvarnalæknir hefur sömuleiðis lagt til að Færejar og Grænland verði tekin af lista yfir há-áhættusvæði.

„Ég lít á þetta sem varfærið skref því markmið okkar er að sjálfsögðu fyrst og síðast að aflétta þeim takmörkunum varfærnum skrefum sem hafa verið í gildi hér innanlands þannig að við getum áfram farið út úr þessu öll saman hér á Íslandi en líka að tryggja þá að enginn sem komi hingað til lands sé þá að koma með þessa veiru í farteskinu,“ sagði Katrín að lokum.

Unnið er að því að aflétta takmörkunum hér á landi og er næsta aflétting boðuð 25. maí næstkomandi og þar næsta þremur vikum síðar, eða í kringum miðjan júní. Farið er nánar í afléttingu ferðatakmarkanna í skýrslu stýrihóps en hana má finna á vef Stjórnarráðsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.