Plastétandi ormar vöktu athygli á Hátíð hafsins sem haldin var nú á dögunum. Þar bauðst gestum og gangandi að fylgjast með ormunum sem gæddu sér á frauðplasti, en einnig mátti skoða aðrar leiðir til þess að sporna við ofnotkun á plasti. Gestir voru hvattir til þess að hætta notkun á einnota plasti.

Tveir listamenn, Hildigunnur Birgisdóttir og Arnar Ásgeirsson, unnu að sýningunni í samstarfi við Umhverfisstofnun. Tilgangur sýningarinnar var að vekja fólk til vitundar um plastmengun í hafi og hvernig hægt sé að sporna gegn henni. Yfirskrift verksins var: Geta ormar bjargað heiminum?

„Það var sett fram ákveðin hugmynd um að setja upp rannsóknarstofu með plastétandi vaxormum og vorum að fá fólk inn til þess að skoða þá og líka að varpa fram þessari spurningu hvort þeir væru einhver lausn við þessu plastvandamáli hafsins, sem þeir eru alls ekki,” segir Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í samtali við Fréttablaðið.

Vaxormarnir sem um ræðir éta einungis frauðplast, en á sýningunni mátti meðal annars sjá þrjá orma hamast við að éta lítinn frauðbolla. Það myndi taka þessa þrjá orma heilar tíu vikur að éta hann upp til agna. „Þeir vissulega geta borðað plastið og breytt því í náttúrulegt efni en þeir eru svo ofboðslega lengi að því að þeir gera ekki gagn fyrir okkur eins og stendur.”

Þurfum að breyta okkar hegðun

Á sýningunni var einnig til sýnis plastrusl sem hefur fundist á ströndum landsins og reynt var að gera fólki grein fyrir því hversu mikið af plasti endar í ruslinu.

„Við erum að nota allt of mikið af plasti og við erum að nota mikið af einnota plasti. Við eigum  að draga úr þessari notkun fyrst og fremst, eins mikið og við getum og síðan að koma í veg fyrir að þetta rusl komist út í náttúruna hvort sem það er á landi eða í sjó,” segir hún.

Hólmfríður bætir við að markmið starfsfólks Umhverfisstofnunar sé að draga úr almennri sóun og sóun á auðlindum, til dæmis olíunni sem notuð er við gerð plastsins og við framleiðsluferlið. Einnig bendir hún á mikilvægi þess að tína upp ruslið sem er nú þegar komið út í náttúruna og að flokka það svo hægt sé að endurvinna það.

„Það eru engar lausnir aðrar en þær að við þurfum að breyta okkar hegðun,” segir hún.

Þá bendir hún á að almennir borgarar geti gert ýmislegt til þess að snúa þessari þróun við og segir að þó að plast hafi ýmsa góða eiginleika þurfi fólk að hætta að líta á plast sem einnota afurð. Með því að nota margnota ílát og flokka rusl megi draga verulega úr þessari sóun, en einnig þurfi að hreinsa það plast sem nú þegar hefur farið út í náttúruna. Hólmfríður bætir við að framleiðendur og veitingastaðir beri líka ákveðna ábyrgð, þeir geti haft áhrif með því að framleiða umhverfisvænni vörur en að neytendur verði einnig að láta í sér heyra og setja kröfu um umhverfisvænni lausnir.

Hluti plastsins óendurvinnanlegur

Hólmfríður telur að Íslendingar gætu gert mun betur þegar kemur að því að flokka og að einhver hluti plastsins sem fari í endurvinnslu sé óendurvinnanlegur. „Ástæður þess geta verið margvíslegar til dæmis getur plastið verið skítugt og því er mikilvægt að vanda til verka við flokkun þess,” segir Hólmfríður.

Það getur oft reynst fólki erfitt að greina á milli þess hvort umbúðir og annað rusl sé úr plasti eða ekki. Hólmfríður vonast til þess að framleiðendur muni í framtíðinni merkja umbúðirnar sínar þannig að fólk velkist ekki í vafa um úr hverju þær eru og telur að það myndi einfalda flokkunina til muna. Hún bendir einnig á að hægt sé að finna ítarlegar leiðbeiningar um flokkun á flokkunarvef Sorpu.

Ensím eða ormar?

Víða um heim keppast vísindamenn við að finna aðferðir til þess að brjóta niður plast. BBC greindi frá því að árið 2016 hafi japanskir vísindamenn uppgötvað bakteríu sem étur PET plast sem er meðal annars notað í plastflöskur. Með því að snúa upp á ensím gerilsins varð sameindin enn öflugri og getur nú brotið niður plastflöskur á aðeins örfáum dögum. Notkun ensímanna gæti orðið grunnur að nýjum aðferðum við endurvinnslu á PET plasti. 

Ef til vill munu vísindamenn gera svipaða uppgötvun með frekari rannsóknum á vaxormunum, en sem komið er er ekki vitað hvort bakteríurnar í meltingarvegi þeirra séu einar að verki eða hvort eiginleikar ormsins sjálfs spili inn í. Það verður því spennandi að fylgjast með því hvort vísindamenn komist lengra með þessa uppgötvun og finni ef til vill leið til þess að nýta ormana á skilvirkari hátt gegn plasti, en þangað til berum við, mannfólkið, ábyrgðina.