Börn sem eru fædd árið 2017 geta fengið bólusetningu frá fimm ára afmælisdeginum sínum. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef embættis landlæknis auk þess sem foreldrum er leiðbeint þar um hvernig þau geti skráð börnin í bólusetningu.
Foreldra þessara barna geta ekki notað síðuna https://skraning.covid.is/en þar sem það kerfi var sett upp fyrir janúarátak bólusetningar barna, sem eru fædd 2010-2016 en fram kemur á vef embættis landlæknis að þegar tenging kemst á milli barna og forsjáraðila fyrir árgang 2017 á https://skraning.covid.is/en, verður það auglýst sérstaklega.
Þangað til þarf að gera eftirfarandi til að fá bólusetningu fyrir börn fædd 2017, sem orðin eru 5 ára:
- Afla forsjárgagna til að sýna á bólusetningarstað (t.d. á gömlum mínum síðum á island.is)
- Fá staðfestingu þess forsjáraðila, sem ekki fylgir barni í bólusetningu, á að hann sé samþykkur bólusetningu
- Fá upplýsingar frá heilsugæslu um hvenær bólusetning verður í boði eftir 5 ára afmæli barnsins
- Mæta með barn, forsjárgögn og samþykki hins forsjáraðilans á viðeigandi stað og stund