Rauði krossinn, sem hefur haft um­sjón með far­sóttar- og sótt­varnar­húsum fyrir hönd stjórn­valda undan­farin ár, var ekki upp­lýstur um nýja reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra fyrr en hún birtist síð­degis í dag.

Er það mat Rauða krossins að nýja reglu­gerðin setji sótt­varnir og góðan árangur í sótt­varnar­húsum í upp­nám og lýsa full­trúar fé­lagsins yfir veru­legum á­hyggjum af því. Þetta kemur fram í til­kynningu sem barst fjöl­miðlum á tíunda tímanum í kvöld.

Nýja reglu­gerðin felur í sér breytt skil­yrði um dvöl í sótt­kví og eru boðaðar tals­verðar breytingar hvað varðar sótt­varnar­hús, eða sótt­kvíar­hótel fyrir ferða­fólk. Kveður nýja reglu­gerðin meðal annars á um að öllu ferða­fólki bjóðist endur­gjalds­laus dvöl á sótt­kvíar­hóteli óháð hvaðan það kemur og að gestir sótt­kvíar­hótela geti notið úti­vistar.

Bent er á það að starfs­fólk Rauða krossins hafi öðlast mikla reynslu af sótt­vörnum og þjónustu við ein­stak­linga í sótt­kví og ein­angrun undan­farið ár. Þá hafi nokkur smit greinst meðal gesta sótt­kvíar­hótelsins við Þórunnar­tún á þeirri viku sem liðin er frá opnun þess.

„Hefði sótt­vörnum hússins verið á­bóta­vant eða sam­gangur verið á milli gesta, er ljóst að þessi smit hefðu hæg­lega getað leitt til hóp­sýkingar. Slíkt hefði getað sett hluta starfs­fólks hótelsins í sótt­kví og orðið til þess að lengja sótt­kví annarra gesta, en einungis ör­fáir fram­línu­starfs­menn Rauða krossins hafa hlotið bólu­setningu.“

Í til­kynningunni er tekið fram að Rauði krossinn taki heils­hugar undir mikil­vægi þess að ein­staklingar í sótt­kví fái að njóta úti­veru eins og frekast er unnt.

„En með ofan­greint í huga, auk þess skamma undir­búnings­tíma sem reglu­gerðin gefur, er það mat Rauða krossins að ekki sé ger­legt að tryggja úti­veru gesta og sér­stakan að­búnað fyrir börn á sótt­kvíar­hóteli – líkt og ný reglu­gerð boðar – nema á kostnað sótt­varna og þar með öryggis gesta sótt­kvíar­hótelsins.“

Þá segir að lokum að Rauði krossinn bindi vonir við að til­lit verði tekið til þessara á­hyggju­efna enda sé það ein­lægur vilji Rauða krossins að veita stjórn­völdum og sam­fé­laginu öllu á­fram­haldandi að­stoð.