Gesturinn sem átti að vera í þætti Helga Björns, Það er komin Helgi, í Sjónvarpi Símans í kvöld og var talinn hafa smitast af COVID-19, hefur nú fengið niðurstöður úr sýnatöku og er ekki smitaður.

Helgi Björns hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví ásamt hljómsveitinni Reiðmenn vindanna eftir að grunur kom upp um smit hjá einum af aðalgesti hans.

Þátturinn átti að vera í beinni klukkan 20 í kvöld en í stað þess var ákveðið að klippa saman brot af því besta. Þátturinn verður með eðlilegu móti næstu helgi.

„Það er mikill léttir að þurfa ekki að hugsa um þetta meir,“ segir Helgi í samtali við Fréttablaðið. Hann segist vonast til þess að allt fari samkvæmt áætlun í næstu viku.