Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði af­skipti af manni í annar­legu á­standi á sótt­varnar­hóteli í Austur­bænum á sjöunda tímanum í gær, en maðurinn er dvalar­gestur á hótelinu.

Kvartanir höfðu borist eftir að maðurinn ó­náðaði aðra gesti og hafði í hótunum við einn gest. Þá er maðurinn grunaður um eigna­spjöll á hótelinu.

Táningur fluttur á bráðamóttökuna

Á sjötta tímanum barst lög­reglu til­kynning um mótor­hjóla­slys við Tungu­mela í Mos­fells­bæ. Sau­tján ára barn hafði fallið af mótor­kross­hjóli og hlotið á­verka á baki við falið. Hinn slasaði var fluttur með sjúkra­bif­reið til að­hlynningar á Bráða­deild Land­spítalans. For­ráða­maður barnsins var á vett­vangi.

Til­kynnt var um um­ferðar ó­happ í Árbæ klukkan rúm­lega hálf átta en tjón­valdur ók af vett­vangi og yfir á rauðu ljósi.

Lög­reglu­menn höfðu síðar af­skipti af tjón­valdi við heimili hans þar sem hann var hand­tekinn og færður á lög­reglu­stöð. Öku­maðurinn er grunaður um akstur bif­reiðar undir á­hrifum á­fengis og fíkni­efna, í­trekaðan akstur sviptur öku­réttindum, vörslu fíkni­efna og fleira. Hann var vistaður fyrir rann­sókn máls í fanga­geymslu lög­reglu.

17 ára á nærri 130 kílómetra hraða

Fleiri öku­menn voru stöðvaðir grunaðir um ölvunar- eða fíkni­efna­akstur, eða alls sex talsins. Reyndust fjórir þeirra vera án gildra öku­réttinda, þar af tveir sem höfðu verið sviptir öku­réttindum.

Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var bíll stöðvaður vegna hrað­aksturs á Suður­lands­vegi. Mældur hraði bif­reiðarinnar var 124 kíló­metrar á klukku­stund á svæði þar sem há­marks­hraði er 80.

Öku­maðurinn sem er 17 ára og taldi sig hafa verið á minni hraða en kvaðst ekki hafa verið að fylgjast með hraða­mælinum.