Gestum í Húsdýragarðinum í Reykjavík hefur ekki fækkað þrátt fyrir að margir hafi elt veðrið á Norður- og Austurland. Það sem af er júlí hafa yfir 33 þúsund gestir komið í garðinn.

„Þegar gestatölur eru skoðaðar er ekki að sjá að gestir okkar séu allir farnir út á land. Greinilegt er að margir kjósa að dvelja í höfuðborginni hvort heldur sem íbúar hennar eða gestir,“ segir Unnur Sigurþórsdóttir, verkefnastýra fræðsludeildar Húsdýragarðsins, spurð um aðsóknina í garðinn í sumar.

Mikill fjöldi fólks úr höfuðborginni hefur lagt leið sína á Norður- og Austurland þar sem mikill hiti og sól hefur verið í sumar. Meira hefur verið um súld, rigningu og þoku í borginni en líkt og Unnur segir hefur það ekki haft áhrif á fjölda gesta í Húsdýragarðinum.

Það sem af er júlí hefur 33.551 gestur komið í Húsdýragarðinn og segir Dagný Hrund Valgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, tölurnar benda til þess að júlí verði „mjög nálægt meðaltali síðustu ára“, en að meðaltali hafa rúmlega 43 þúsund gestir komið í garðinn í júlí síðustu sex ár.

„Gestafjöldinn okkar er rétt yfir meðaltali ef skoðuð eru seinustu ár. Hins vegar þurftum við að loka garðinum nokkuð í fyrra og því eru gestatölur í fyrra aðeins minni en venjulega,“ segir Dagný. Vegna Covid-19 faraldursins var garðurinn lokaður 24. mars til 27. maí 2020, 5. október til 9. desember 2020 og 25. mars til 14. apríl 2021.

Unnur segir að vel hafi tekist til í garðinum undanfarið þrátt fyrir að nauðsynlegt hafi verið að loka í ströngustu samkomutakmörkununum.

„Fólk sýnir hvers kyns takmörkunum skilning og þrátt fyrir að hér hafi myndast langar raðir þegar mest var að gera í vor meðan takmarkanir voru enn við lýði gekk allt upp.“

Spurð hvort lokanirnar og faraldurinn hafi haft áhrif á líf dýranna í garðinum segir Unnur svo ekki vera. Þegar ströngustu takmarkanir hafi verið við lýði hafi verið tryggt að alltaf væri einhver á vakt til að sinna dýrunum. Starfsfólki var skipt á vaktir sem aldrei hittust þannig að ef ein vakt færi í sóttkví gætu aðrar tekið við.

„Verkin í kringum dýrin eru þau sömu þó svo engir gestir séu, kannski helst að starfsfólk hafi fengið meiri tíma til að kynnast þeim í gestaleysinu,“ segir Unnur.

Í maí og júní fjölgaði gestum í Húsdýragarðinum miðað við meðalfjölda síðustu sex ára. Í maí á þessu ári heimsóttu garðinn yfir 24 þúsund manns sem er fjölgun um sex þúsund gesti. Í júní er sömu sögu að segja en á þessu ári voru gestir þann mánuðinn rúmlega 35 þúsund talsins, en meðaltal síðustu sex ára er tæplega 28 þúsund gestir.