„Í 4,5 milljarða ára hafa smá­stirni rekist á Jörðina. Í kvöld ætlar mann­kynið að „hefna“ sín smá með því að láta geim­far skella á smá­stirninu Dím­or­fos. Til­gangurinn: Að læra hvernig við komum í veg fyrir að fari fyrir okkur eins og risa­eðlunum,“ skrifar Sæ­var Helgi Braga­son, betur þekktur sem Stjörnu-Sæ­var, á Face­book síðu sinni, en geim­fari á vegum banda­rísku geim­vísinda­stofnunarinnar NASA verður brot­lent viljandi á smá­stirninu í kvöld.

Til­gangurinn með brot­lendingunni er að kanna hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt smá­stirni stefni á jörðina.

Á­ætlað er að gervi­tunglið DART brot­lendi á smá­stirninu Dím­or­fos klukkan 23:14 í kvöld að ís­lenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með í beinni út­sendingu á vef NASA í kvöld og hefst út­sendingin klukkan 22:00.

Sam­kvæmt Stjörnu­fræði­vefnum er gervi­tunglið DART lítið kassa­laga geim­far, á stærð við tvö­faldan ís­skáp og vegur um 570 kíló. Á gervi­tunglinu er lítil mynda­vél sem tekur myndir alveg fram á síðustu stundu, en við á­reksturinn ætti að verða til allt að tuttugu metra breiður gígur. Þá er talið að við á­reksturinn hnikist spor­braut Dím­or­fos um móður­hnöttinn Dídýmos lítil­lega, en breytingin verður mæld með sjón­aukum á Jörðinni næstu mánuði.

Þetta tæki­færi býðst ekki aftur fyrr en eftir 107 ár

Þá hvetur Stjörnu-Sæ­var lands­menn að líta til himins í kvöld, þar sem Júpíter sé í svo­kallaðri gagn­stöðu í kvöld, sem gerir hann enn bjartari og stærri í sjón en nokkru sinni áður.

„Það þýðir að Júpíter, Jörðin og sólin eru í nánast beinni línu og vega­lengdin milli Jarðar og Júpíter minnst. Júpíter verður þá 591 milljónir km í burtu. Hefur hann ekki verið nær jörðu síðan í októ­ber 1963 og verður næst á­líka ná­lægt okkur 7. októ­ber 2129,“ skrifar Sæ­var.

Þá liggi Júpíter svo vel við at­hugun að hægt sé að sjá tvö tungl hans, Ganý­medes og Kallistsó, með berum augum.

„Að­eins þó þegar tunglin tvö eru lengst frá Júpíter. Þá þarf líka að hylja Júpíter sjálfan, t.d. með tré, þak­brún eða ein­hverju slíku til að koma auga á mjög daufar „stjörnur“ ná­lægt honum,“ skrifar Sæ­var, sem segist ætla út í kvöld og horfa á stjörnurnar.