„Í 4,5 milljarða ára hafa smástirni rekist á Jörðina. Í kvöld ætlar mannkynið að „hefna“ sín smá með því að láta geimfar skella á smástirninu Dímorfos. Tilgangurinn: Að læra hvernig við komum í veg fyrir að fari fyrir okkur eins og risaeðlunum,“ skrifar Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, á Facebook síðu sinni, en geimfari á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA verður brotlent viljandi á smástirninu í kvöld.
Tilgangurinn með brotlendingunni er að kanna hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt smástirni stefni á jörðina.
Áætlað er að gervitunglið DART brotlendi á smástirninu Dímorfos klukkan 23:14 í kvöld að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu á vef NASA í kvöld og hefst útsendingin klukkan 22:00.
Samkvæmt Stjörnufræðivefnum er gervitunglið DART lítið kassalaga geimfar, á stærð við tvöfaldan ísskáp og vegur um 570 kíló. Á gervitunglinu er lítil myndavél sem tekur myndir alveg fram á síðustu stundu, en við áreksturinn ætti að verða til allt að tuttugu metra breiður gígur. Þá er talið að við áreksturinn hnikist sporbraut Dímorfos um móðurhnöttinn Dídýmos lítillega, en breytingin verður mæld með sjónaukum á Jörðinni næstu mánuði.
Þetta tækifæri býðst ekki aftur fyrr en eftir 107 ár
Þá hvetur Stjörnu-Sævar landsmenn að líta til himins í kvöld, þar sem Júpíter sé í svokallaðri gagnstöðu í kvöld, sem gerir hann enn bjartari og stærri í sjón en nokkru sinni áður.
„Það þýðir að Júpíter, Jörðin og sólin eru í nánast beinni línu og vegalengdin milli Jarðar og Júpíter minnst. Júpíter verður þá 591 milljónir km í burtu. Hefur hann ekki verið nær jörðu síðan í október 1963 og verður næst álíka nálægt okkur 7. október 2129,“ skrifar Sævar.
Þá liggi Júpíter svo vel við athugun að hægt sé að sjá tvö tungl hans, Ganýmedes og Kallistsó, með berum augum.
„Aðeins þó þegar tunglin tvö eru lengst frá Júpíter. Þá þarf líka að hylja Júpíter sjálfan, t.d. með tré, þakbrún eða einhverju slíku til að koma auga á mjög daufar „stjörnur“ nálægt honum,“ skrifar Sævar, sem segist ætla út í kvöld og horfa á stjörnurnar.