Snævi þakin Hafnargatan í Reykjanesbæ kann að hafa veitt snjósólgnum Suðurnesjamönnum skammgóða gleði í dag. Um falskan vetrarboða er að ræða þar sem lífrænum gervisnjó hefur verið dreift um bæinn þar sem kvikmyndatökur fara fram á HBO þáttaröðinni True Detective.

Streymiveitan HBO Max stendur fyrir tökunum á fjórðu seríu þáttanna og er áætlað að tökur muni standa yfir í um níu mánuði. Stórstjarnan Jodie Foster fer með hlutverk í þáttunum en þótt þættirnir séu teknir upp á Íslandi verður sögusviðið Alaska.

„Þetta gengur bara vel og okkur líst vel á,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar. „Þetta er auðvitað spennandi og okkur þykir gaman að geta lagt þessu lið.“

Er ekki pínu svindl að bærinn sé kominn í vetrarbúning með þessu móti?

„Jújú,“ svarar Kjartan Már og hlær. „Við vorum að veita menningarverðlaun í gær þegar blaðamaður Víkurfrétta vék sér að mér og sagðist hafa séð einn af íbúum okkar slá blettinn á sama tíma og það væri verið að útbúa gervisnjó í Hafnargötunni.“

Kjartan Már sér ekki fram á að kalla þurfi út gervisnjóplóg til að þrífa upp eftir tökur.

„Þeir sjá alfarið um þetta og skila öllu fínu og hreinu þegar tökum er lokið.“

Rétt eins og alvöru snjór kemur gervisnjórinn öllum í jólaskap.
Mynd/Aðsend

Meðal tökustaða verður kráin Paddy‘s á Hafnargötu sem mun undirgangast breytingar á næstu vikum.

„Þetta breytist mjög hratt,“ segir Björgvin Ívar Baldursson hjá Paddy‘s, óviss um hvort einhverjar af breytingunum verði varanlegar. „Við þurfum bara að sjá hvort þetta verði vel heppnað og hvort það henti staðnum.“

Kvikmyndatökurnar boða ákveðið þjófstart á veturinn.
Mynd/Aðsend