Beinagrind sem sænska slökkviliðið hafði fundið í almenningsgarði, fullyrt að um gervi væri að ræða og hunsað í september á síðasta ári reyndist vera raunveruleg eftir útkall í sama garð mánuðum síðar. Lögregla hefur nú hafið morðrannsókn. Norski miðillinn VG greinir frá þessu.
Síðastliðinn september fékk slökkviliðið í Malmö tilkynningu um eld í Slottsparken í miðbæ Malmö. Í dagbök slökkviliðsins kom fram að einhver hefði skemmt sér við að kveikja í plastbeinagrind, eins og þeim sem notaðar eru við kennslu í skólum.
Mánuðum síðar, í mars á þessu ári, fannst beinagrind í sama garði. Sú beinagrind var raunveruleg og er talin hafa verið frá konu sem auglýst var að saknað væri mánuðum áður. Konan, sem var 58 ára, hvarf af heimili sínu fyrir ári síðan. Bæði lögregla og leitarsamtök leituðu hennar án árangurs.
Ulrika Lindmark, yfirmaður aðgerða hjá Björgunarsveitinni Sy, segir slökkviliðið í Malmö ekki hafa afgreitt málið á gagnrýnisverðan hátt. Hún segir slökkviliðið hafa tilkynnt málið í september til lögreglu vegna óþæginda sem gervibeinagrindin kunni að hafa valdið gestum garðsins.
Lögreglan hafi síðan leitað í garðinum að beinagrindinni en ekki fundið neina, því hafi ekki meira verið gert í því máli.
Lögreglu var síðan tilkynnt um beinagrind í garðinum í mars á þessu ári, það hafi reynst vera raunveruleg beinagrind, og frá konunni sem lýst var eftir fyrir ári síðan.
Opnað fyrir morðrannsókn
Sex mánuðum eftir að beinagrindin var fyrst uppgötvuð var opnað fyrir morðrannsókn. Lögreglan í Svíþjóð hefur einnig tilkynnt sjálfa sig fyrir misferli í málinu.
Nils Norling, hjá lögreglunni í Malmö, segir við sænska blaðið Aftonbladet að það versta í þessu máli sé að fjölskylda konunnar hafi þurft að bíða hálfu ári of lengi eftir því að vita hver örlög hennar hafi verið. „Auðvitað hefði verið betra fyrir rannsóknin ef þessi niðurstaða hefði komið fram fyrr,“ segir Norling.
Lögreglan veit ekki enn hvernig eða hvenær konan lést.
Aldrei heyrt um svipað
Fyrrverandi rannsóknastjórinn og rithöfundurinn Jørn Lier Horst segir í samtali við VG að hann hafi aldrei heyrt um svipað mál. „Hvorki að kveikt sé svona í líki eða beinagrind, eða að lík gleymist svona,“ segir Horst.
Hann segir það erfitt að segja hvað raunverulega hafi gerst, en þetta virðist vera röð óheppilegra atvika. „Líklega er ekki hægt að kenna neinum um, en það er ámælisvert,“ segir Horst.
Finn Abrahamsen, fyrrverandi lögreglustjóri í Osló og álitsgjafi VG, segir margt vera í gangi í þessu máli. „Hvernig getur lögreglan sagt að þetta sé sama beinagrindin ef hún var ekki einu sinni viðstödd fyrst þegar beinagrindin var fundin.
Hann leggur áherslu á að slökkviliðið eigi að hafa svo mikla reynslu og þekkingu að þau eigi auðveldlega að sjá muninn á plasti og beinum.