Íslenskar konur hafa undanfarið orðið fyrir barðinu á netsvindlurum sem setja upp gervi-klámsíður tengdar Instagram með því að stela ljósmyndum af þeim og birta þær ásamt klámmyndböndum sem virðast sýna þær á klámfenginn hátt.
Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, blaðamaður DV, fjallaði um málið í Fréttavaktinni í kvöld í samtali við Nínu Richter. Sú síðarnefnda opnaði sig lítillega um það að hún hefði lent í þessu sjálf.
„Auðvitað fær það á fólk að einhver annar haldi að maður sé með svona síðu þegar maður er ekki með svona síðu í alvörunni. Þetta er einhverskonar innrás í einkalífið,“ segir Nína.
Gervi-Instagram reikningarnir leiða gjarnan á gervi OnlyFans-klámsíðu. Þar er fólk beðið um að gefa upp kortaupplýsingar til að fá aðgang að klámefninu, og gefur fólk þær upp geta tölvuþrjótarnir verið komnir með þær í hendurnar.
Guðrún segir að þessi tiltekna tegund af netsvindli hafi byrjað í Bandaríkjunum og Ástralíu á síðustu árum. „Við erum orðin ansi hrædd um að þetta sé nýjasta bylgjan,“ segir Guðrún sem rifjar upp fleiri netsvindl sem hafa gert Íslendingum lífið leitt í gegnum tíðina.
„Því miður er voðalega lítið hægt að gera,“ segir Guðrún og Nína bætir við að lögreglan bregðist ekki við málum sem þessum. Þó er hægt að tilkynna síðuna til Instagram og fá sem flesta til að gera slíkt hið sama. „Instagram verður að sjá að þeim hafi borist nægilega margar tilkynningar um þennan aðgang og þá skoða þau málið.“
Spurð út í hvaða einstaklingar séu líklegastir til að lenda í þessu svindli minnist Guðrún á áhrifavalda, frægt fólk, og fólk í opinberum stöðum. Einnig á það við um fólk með opin Instagram-reikning.