Aðal­steinn Leifs­son, ríkis­sátta­semjari, segir það ef til vill hafa verið ó­venju­legt að á­kveðið hafi verið í gær að fresta sam­eigin­legum fundi og fara þess í stað í heima­vinnu. Dagurinn leggist þó vel í hann.

„Það fóru allir í sína heima­haga og áttu þar góð sam­töl. Og ég veit að það var mikil vinna langt fram eftir kvöldi hjá mörgum. Síðan setjumst við fersk niður í dag til að skoða og máta og sjá hvort það séu ein­hverjar lausnir,“ segir Aðal­steinn, og heldur á­fram:
„En eins og ég hef sagt áður, þá eru þetta gríðar­lega við­kvæmar og erfiðar við­ræður.“

Þá séu fundir bókaðir til klukkan sex í dag og hann reikni með að allir aðilar verði í þéttri vinnu.

„Við sjáum til hvernig þetta þróast, en ég skil það vel að það er mikið undir og það er mikið álag á fólki. Það er vanda­samt verk­efni og oft van­metið að vera í samninga­nefndum, hvort heldur fyrir stéttar­fé­lag eða launa­greið­endur. Það er mikil pressa og auð­vitað skynjum við það og gerum allt sem við getum til þess að sam­talið verði gott,“ segir Aðal­steinn.