Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, gerði gys að sundafrekskonunni Ragnheiði Runólfsdóttur fyrir að hafa orðið fyrir heimilisofbeldi en þetta kemur fram í upptökum sem Stundin birtir af samræðum þingmanna frá því á Klaustur Bar í síðustu viku.

„Já sunddrottninguna já, voruði að lemja hana?“ heyrist Gunnar Bragi segja á upptökunni.  Ragnheiður sagði frá reynslu sinni í Akureyri Vikublaði í fyrra af heimilisofbeldi sem hún segist hafa upplifað af hendi barnsföður síns og sambýlismanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Í upptökunni má heyra þingmennina ræða málið í gamansömum tóni. Bergþór: „Sá sem lemur Röggu Run, hann á ekki séns á Vesturlandi.“ Anna Kolbrún: „Ég veit það. Veistu, ég er sammála þér, ég skil ekkert í ykkur.“ Gunnar Bragi: „Ha? Sá sem lemur Röggu Run? Hver er það?“ Bergþór: „Já.“ Gunnar Bragi: „Já sunddrottninguna já, voruði að lemja hana? Hahahahahaha!“ Bergþór: „Maggi gerði það sko.“

Fyrsti þingfundur á Alþingi eftir að málið kom upp fór fram í dag og kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, að málið yrði rannsakað sem mögulegt siðabrot. Þá sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að orðræðan sem birst hefði í Klaustursmálinuværi óverjandi og kallaði hún eftir því að kjörnir fulltrúar fylgi siðareglum Alþingis í hvívetna.