Þeim félögum sem höfðu aðstöðu í gamla sláturhúsinu í Brákarey hefur verið gert að tæma húsnæðið 16. janúar. Borgarbyggð ákvað að loka húsnæðinu í febrúar síðastliðnum eftir úttekt Slökkviliðsins og byggingarfulltrúa.

„Þetta er hrikalegt. Við höfum ekki verið með starfsemi síðan í febrúar þegar okkur var hent út,“ segir Þórður Sigurðsson formaður Skotfélagsins. En einnig höfðu aðstöðu Golfklúbburinn, Fornbílafélagið, Bifhjólafélagið og Pútthópurinn sem í október sendu áskorun á sveitarstjórn að opna aftur húsið.

„Okkur hefur ekki verið boðið eitt eða neitt en bæjarstjórn skreytir sig af því að okkur hafi verið boðið um að að sækja um útisvæði,“ segir Þórður aðspurður um hvernig samtalið við sveitarstjórnina gangi. Um rætt svæði er við Ölduhrygg, svæði sem félaginu var synjað um árið 2015.

Þegar skotfélagið var stofnað, árið 2012, var þeim boðin aðstaðan í Brákarey og gerðu félagsmenn upp svæðið sitt að innan.

„Við settum upp veggi, steyptum í gólf og réttum þau af, setja í loftin, mála, setja upp hurðir, pípulagnir, smíðuðum stálvirki á veggina og flóttaramp. Kostnaðurinn hleypur á milljónum,“ segir Þórður. Fleiri þúsund vinnustundir um 130 félagsmanna, sem margir hverjir eru iðnaðarmenn, hafi farið í verkið og margir hafi keypt efni út á sinn eigin reikning. Kostnaður félagsins sjálfs var 2,5 milljón.

Samkvæmt skýrslu Verkís sem Borgarbyggð lét gera kostar það meira en 600 milljónir króna að lagfæra húsið til að það standist kröfur.

„Við viljum að húsið verði lagað og það kostar engar 600 milljónir,“ segir Þórður. Húsið sé 7 þúsund fermetrar og stór hluti sé í lagi. Hvað Skotfélagið varðar þarf að laga þakið, sem kosti um 50 milljónir, og félagsmenn hafi boðist til að gefa vinnu sína ef sveitarstjórn skaffaði járnið. „Fólkið sem er hjá okkur er flest ekki í neinni annarri afþreyingu.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri segir að ákvörðun um framtíð hússins verði ákveðin fyrir lok kjörtímabilsins, í vor. Hluti hússins, sem talinn er ónýtur, verði þó rifinn.

„Félögin hafa aðallega boðið aðstoð við lagfæringar á sínum hluta húsnæðisins, en það þarf að skoða þetta verkefni út frá heildarsamhenginu. En þetta er stórt verkefni sem yrði aldrei gert án mikillar fjárhagslegrar aðkomu sveitarfélagsins,“ segir Þórdís. „Við erum að reyna að finna aðrar lausnir með félögunum sem voru í húsinu. Fæstir sjá húsið fyrir sér sem framtíðarstaðsetningu fyrir sína starfsemi. Við erum meðvituð um að þessir aðgerðir koma mjög illa niður á mörg félög, þar á meðal Skotklúbbunum því aðstaðan þeirra var orðin mjög fín en þetta er ákvörðun sem er tekin með heilsu og öryggi manna að leiðarljósi.“

Hvað mikla vinnu og fjármagn sem Skotfélagið hafi lagt í húsið segir hún að flestir í húsnæðinu hafi verið með samning til eins árs í senn. Í þeim komi fram að allt sem framkvæmt er verði eign sveitarfélagsins.

„Við höfum boðið Skotfélaginu að sækja um starfsleyfi á útisvæði sem búið er að taka út út frá hljóðvörnum. Við stefnum einnig á uppbyggingu íþróttamannvirkis og höfum rætt um það hvort þar gæti verið aðstaða fyrir Skotfélagið,“ segir Þórdís. Hvað það mannvirki varðar er enn þá verið að gera rannsóknir á jarðvegi.