Ekki hefur tekist að birta ósakhæfum manni í þrítugsaldri dóm um að hann skuli sæta öryggisgæslu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögreglu.

Maðurinn var í desember sviptur ökurétti í þrjú ár eftir að hafa ekið á ofsahraða frá Akureyri til Reykjavíkur en var sýknaður af refsikröfu vegna ósakhæfis og gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Dómur í máli hans hefur verið birtur í lögbirtingarblaðinu en sjálfur var maðurinn ekki viðstaddur dómsuppsögu og var lögreglu falið að birta dóminn fyrir honum.

„Ekki náðist í dómfellda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að birta honum dóminn,“ segir í tilkynningu í lögbirtingarblaðinu en dómari telur manninn geta verið hættulegan sjálfum sér og öðrum.

Á 148 km hraða í Hvalfjarðargöngum

Í dóminum sem féll í desember í fyrra í Héraðsdómi Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi verið í alvarlegu geðrofi þegar hann réðst á lögregluþjón eftir mikla eftirför þar sem lögregla þurfti að nota naglamottu til að stöðva hann.

Maðurinn flutti frá Serbíu til Íslands árið 2007 og átti lengi við geðræn veikindi að stríða. Hann hafði óskýrar minningar um ferð sína daginn sem hann var stöðvaður.

Lögreglan náði að stöðva manninn með naglamottu á vegarkafla við hringtorg hjá Álafosskvos.
Fréttablaðið/Valli

Lögreglan veitti manninum eftirför eftir að hafa fengið fjölda tilkynninga um fólksbíl á ofsahraða á hættuljósum við Hafnarfjall í Hvalfjarðarsveit. Lögregla mældi hraða mannsins á vegarkafla við Kúludalsá og var þá ökuhraðinn 209 km/klst þar sem hámarkshraði var 90. Maðurinn birti ekki stöðvunarmerki lögreglunnar og hélt áfram á ofsahraða í átt að höfuðborgarsvæðinu og fór hann í gegnum Hvalfjarðargöngin á 148km/klst hraða. Hann skapaði mikla hættu á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ þar sem hann reyndi að komast undan lögreglu á 160. Loks náði lögregla að stöðva manninn með naglamottu við hringtorgið við Álafosskvos.

Fréttablaðið/Anton Brink

„Þá væri hann með sögu um að hætta að taka inn geðlyf og því þurfi að fylgjast áfram með því.“

Þegar maðurinn steig út úr bílnum kom til líkamlegra átaka við lögreglumann og þurfti að fleiri lögreglumenn til að yfirbuga manninn. Maðurinn lýsti því í skýrslutöku að hann hafi verið sprautaður í andlitið með piparúða og að hrákagríma, eða plastpoki, hafi verið sett á höfuð hans.

Lögreglumaður lýsti fyrir dómi að maðurinn hafi verið æstur og ógnandi og óhlýðnast fyrirmælum lögreglumanns og að lögregla hafi yfirbugað hann með lögreglutökum, kylfu, úðavopni og handjárnum og með hrákagrímu.

Var í alvarlegu geðrofsástandi og þarf stöðugleika

Maðurinn lét áfram ófriðlega á lögreglustöð og þurfti að grípa til „sérstakra ráðstafana“ við gæslu hans. Blóðsýni var tekið úr manninum og læknir kvaddur til aðstoðar. Læknirinn lýsti síðar fyrir dómi að maðurinn hafi í fyrstu virst mjög reiður og skallað höfðinu sínu í hurðina og vegg. Í blóðinu fannst hvorki lyf né ávana- og fíkniefni og var hann í kjölfarið nauðungarvistaður inn á geðdeild þar sem hann naut aðstoðar læknismeðferðar.

Geðlæknir komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn ætti við alvarlegan geðhvarfasjúkdóm að stríða og að hann hafi verið stöðvaður í alvarlegu geðrofsástandi af oflætistoga. Eftir atvikið fór maðurinn í læknis -og lyfjameðferð og var í eftirliti hjá geðhvarfateymi á Kleppi. Eftir það var andlegt jafnvægi hans gott og hann sýndi ekki nein merki um veikindi.

Að mati geðlækna var maðurinn ósakhæfur á verknaðarstundu þar sem hann var ófær um að stjórna gerðum sínum vegna geðrofs. Hann væri þó hættulegur í umferðinni og því nauðsynlegt að svipta hann ökurétti.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að maðurinn sæti öryggisgæslu og haldi áfram að taka geðlyf þar sem stöðugleiki væri mikilvægur fyrir manninn. Frávik geti aukið á veikindin og hann hafi sýnt að hann sé hættulegur sjálfum sér og öðrum í geðrofi.

„Þá væri hann með sögu um að hætta að taka inn geðlyf og því þurfi að fylgjast áfram með því.“

Sigurðar Ólafsson aðstoðarsaksóknari sótti málið fyrir hönd ákæruvalds.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Lögreglan náði ekki í manninn

Maðurinn var ekki viðstaddur dómsuppsögu og var því lögreglu falið að birta dóminn fyrir höndum. Lögreglan gat ekki haft uppi á honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Málið er nú í höndum refsivörslukerfisins að sögn aðstoðarsaksóknara.

„Ef þeir hafa ekki náð á hann er farið þessa leið að birta dóminn í lögbirtingablaðinu. Ég gef mér að það hafi ekki tekist að hafa uppi á manninum. Hann var meðvitaður um hvert þetta væri að stefna og þetta er í raun játningarmál,“ segir Sigurðar Ólafsson, aðstoðarsaksóknari sem sótti málið.