Óttar Kolbeinsson Proppé
ottar@frettabladid.is
Fimmtudagur 25. júní 2020
06.00 GMT

„Þessi skáli var ekki byggður með það í huga að vera færður síðar. Það er alveg á hreinu,“ segir Bjarni Skarp­héðinn Bjarna­son eig­andi ferða­þjónustu­fyrir­tækisins Ís og ævin­týri, sem hefur gert út jökla­ferðir á Vatna­jökul frá fjalla­skálanum Jökla­seli síðustu tvo ára­tugi. Skálinn er stór og mikill í mikilli hæð en Bjarni stritar nú við að rífa hann niður og flytja brakið niður á lág­lendið eftir um fimm ára deilur og mála­rekstur við land­eig­endur á svæðinu.

Málið er nokkuð snúið; annars vegar var deilt um rétt Bjarna til að leigja lóðina undir skálann á á­sættan­legu verði af nýjum eig­endum jarðar Kálfa­fells­staðar en síðar komu landa­merkja­bréf frá fyrri hluta síðustu aldar inn í myndina sem virðast sýna að skálinn er alls ekki á jörð Kálfa­fells­staðar heldur innan landa­merkja Borgar­hafnar, en Bjarni er einn eig­enda þeirrar jarðar. Mála­ferli standa enn yfir um landa­merkja­málið.


Buðu fram­lengingu á upp­sprengdu verði


„Þegar menn byggðu skálann árið 1991 og tóku landið á leigu var það af ein­hverjum á­stæðum gert í gegnum prestinn á Kálfa­fells­stað,“ segir Bjarni. Leigu­tími samningsins var 25 ár og var leigan um 72 þúsund krónur á ári. Leigj­endur voru síðan með for­leigu­rétt á lóðinni er leigu­tíminn rann út. Í milli­tíðinni kaupir fyrir­tæki Bjarna Ís og ævin­týri skálann og leigu­réttinn af upp­runa­legum leigjandanum árið 2001.

Jöklasel er við Skálafellsjökul skammt frá Höfn í Hornafirði.
Fréttablaðið

Þegar samningurinn var gerður var ís­lenska ríkið eig­andi Kálfa­fells­staðar en með sam­komu­lagi milli ríkisins og kirkjunnar árið 2014, um prests­setur og af­hendingu þeirra eignaðist kirkju­mála­sjóður jörðina. Í þing­lýstri eigna­yfir­lýsingu er tekið fram að Kálfa­fells­stað fylgi lóðin Kálfa­fells­staður/Jökla­sel. Kirkjan á­kveður síðan að selja lóðina og kaupir nú maður hana að nafni Bjarni Maríus Jóns­son en hann heldur sjálfur úti ferða­þjónustu­fyrir­tækinu Völu.

Í lok árs 2015 rennur svo lóða­leigu­samningur Bjarna Skarp­héðins út og býður nýr eig­andi Kálfa­fells­staðar honum þá að fá lóðina aftur á leigu, en á marg­földu verði; annað hvort alla á 12 milljónir króna á ári eða lítinn hluta hennar þar sem skálinn Jökla­sel stendur á þrjár milljónir króna á ári. „Mér leist ekkert á að borga svona mikið meira og það fyrir þá þrjá mánuði á ári sem er hægt að vera hérna. Það var þá sem mér var fyrst sagt að þetta land til­heyrði ekki Kálfa­fells­stað heldur Borgar­höfn,“ segir Bjarni.

Jöklasel stendur í 840 metra hæð yfir sjávarmáli við Skálafellsjökul.
Fréttablaðið/Aðsend

Undruðust milli­göngu prests


„Ég segi bara eins og er að ég hafði aldrei spáð neitt í þessu. Ég fer þá að tala við fólkið hér í sveitinni og fólkið í Borgar­höfn. Þegar ég sagði þeim þetta þá urðu þau bara stein­hissa á að heyra að presturinn hérna hafi verið að rukka fyrir leiguna. Þetta væri á landi sem til­heyrði þeim,“ heldur hann á­fram.

Landa­merkjabréf og landa­merkja­lýsingar frá árinu 1922 og 1923 segja öll að Staðar­á ráði landa­mærum jarðanna. „Staðar­á deilir á milli Borgar­hafnar og Kálfa­fells­staðar þar sem hún nú rennur úr jökli austan við Hálsa­tind annars vegar og Þor­móðar­hnútu hins vegar, síðan ræður áin þar hún nú rennur suður að fjöru­söndum...“ segir í annarri landa­merkja­lýsingunni.

Landamerkjaskrá fyrir Borgarhafnarlandi. Ljósrit af handskrifuðu frumskjali frá 1922.

Í kjöl­far þessara nýju upp­lýsinga neitaði Bjarni að gangast við leigu­til­boðinu enda taldi hann nokkuð ljóst að skálinn stæði ekki í landi Kálfa­fells­staða og að um al­ger mis­tök hefði verið að ræða hjá þeim sem gerðu upp­haf­lega leigu­samninginn. Nýir eig­endur Kálfa­fells­staðar höfðuðu þá dóms­mál gegn Ís og ævin­týrum árið 2016 þar sem þess var krafist að fjalla­skálinn Jökla­sel yrði fjar­lægður af lóð þeirra. Skálinn er stór og mikill, tekur um 80 til 90 manns í sæti, með svefn­lofti fyrir tuttugu manns og með inn­byggðu eld­húsi og hrein­lætis­að­stöðu.


Þarf að rífa skálann þrátt fyrir vafa um eignar­haldið


Málið var rekið fyrir Héraðs­dómi Austur­lands sem dæmdi eig­endum Kálfa­fells­staðar í vil þann 6. ágúst 2018. Dómurinn vildi þá ekki taka landa­merkja­málið inn í dóminn og taldi það annað mál en þar væri verið að ræða um leigu­rétt og for­leigu­rétt. Bjarni kom þá því sjónar­miði á fram­færi fyrir héraðs­dómi að honum þætti rangt að nýr eig­andinn gæti á­kveðið ein­hliða nýtt leigu­verð. Eig­endur Kálfa­fells­staðar full­yrtu þá að þeir hefðu gert samning við ferða­þjónustu­fyrir­tækið Völu upp á sama verð og að Bjarna hefði þá verið boðið að ganga að sama samning vegna for­leigu­réttarins. Vala er sem fyrr segir fé­lag í eigu eig­enda Kálfa­fells­staðar.

Með dómi Héraðs­dóms voru Ís og ævin­týri dæmd til að fjar­lægja skálann af landinu og greiða eig­endum Kálfa­fellsstaðar skaða­bætur. Þeim dómi var á­frýjað til Lands­réttar sem komst að sömu niður­stöðu nú í nóvember 2019. Bjarni og eig­endur Borgar­hafnar höfðu þá höfðað annað mál um landa­merkin fyrir Héraðs­dómi og fór lög­maður Bjarna fram á það við Lands­rétt að beðið yrði eftir niður­stöðu úr því áður en dómur félli um hvort Bjarni þyrfti að fjar­lægja skálann. Lands­réttur féllst ekki á það.

Bjarni fjar­lægir því skálann nú en hann hefur ekki komist í það fyrr vegna veðurs og færðar á svæðinu. „Það komst ekki krana­bíll hérna upp fyrr en fyrst núna. Það er ekki auð­velt að rífa þetta niður og standa í fram­kvæmdum hér,“ segir hann.

Búið er að rífa mikið niður að innan en niðurrifs skálans að utan hefst ekki fyrr en veður leyfir.
Fréttablaðið/Aðsend

Landa­merkja­málið er nú fyrir dómi sem fyrr segir. Landa­merkjalýsingar frá upp­hafi síðustu aldar eru þau gögn sem Bjarni og land­eig­endur Borgar­hafnar byggja mál sitt á með fyrr­nefndum lýsingum á því hvernig Staðar­á skiptir upp jörðunum. Eig­endur Kálfa­fells­staðar hafa haldið því fram að ár­far­vegur árinnar hafi breyst á síðustu hundrað árum. Dóm­stóllinn fór því fram á að gerð yrði mats­gerð um landa­merki milli jarðanna Borgar­hafnar og Kálfa­fells­staðar af sér­fræðingi í vatna­jarð­fræði.

Hún liggur nú fyrir en í henni segir: „Svarið við seinni mats­spurningunni er að þessi far­vegur (þ.e. gil nr. 2 og Hálsa­gil) hafi ekki breyst veru­lega í áranna rás að öðru leyti en því að hann hefur lengst um mörg hundruð metra til norðurs og vesturs og upp hlíðina að sama skapi og jökul­röndin hefur hörfað. Að öðru leyti er hann á svipuðum stað, og þegar landa­merkja­bréf jarðanna Borgar­hafnar og Kálfa­fells­staðar í Suður­sveit voru gerð á árunum 1922-1923.“

Bjarni segir það þannig öllum ljóst að landið sem skáli hans Jökla­sel stendur á er alls ekki í eigu þeirra sem fengu það í gegn fyrir dómi að skálinn yrði fjar­lægður. Hann segir stöðuna leiðin­lega en á ekki annarra kosta völ en að rífa niður sterk­byggðan stóran skálann og dröslast með brakið niður rúma 800 metrana. Jökla­ferðirnar gerir hann nú út annars staðar frá.

Jökla­sel er austan Staðar­ár. Ár­far­vegurinn á kortinu er eins og sér­fræðingur í vatna­jarð­fræði greindi hann.
Fréttablaðið
Athugasemdir