Karlmaður hlaut í gær sextán mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðdsómi Reykjaness fyrir skattalagabrot.

Manninum, sem var stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri SA verktaka, er einnig gert að greiða 176.920.000 króna sekt til ríkissjóðs. Fyrirtækið var afskráð í sumar.

Maðurinn var ákærður fyrir að standa ekki í skilum á virðisaukaskatti árið 2021, en sú fjárhæð var tæplega 41 milljón króna.

Og þá var hann jafnframt ákærður fyrir að standa ekki í skilum að staðgreiðslu opinberra gjalda árin 2021 og 2022, en upphæðin þar var tæplegar 48 milljónir.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og taldi dómari ekki ástæðu til að draga hana í efa. Í dómnum segir að með vísan til lögbundins fésektarálags sé honum gert að greiða 176.920.000 krónur.

Hann hefur fjórar vikur til að greiða sektina frá birtingu dóms, en takist honum það ekki mun 360 daga fangelsi koma í staðinn.