Maður, sem er grunaður um tilraun til manndráps á móður sinni, mun ekki þurfa að víkja úr dómsal er móðirinn gefur skýrslu í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hins vegar mun hann víkja úr dómsal þegar stúlka gefur skýrslu, en hann er grunaður um kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart henni.

Þetta var úrskurður Landsréttar í málinu, en áður hafði Héraðsdómur úrskurðað að maðurinn þyrfti að víkja í hvorugu málinu. Aðalmeðferð í málinu er hafin.

Á að hafa beitt móður sinni miklu ofbeldi

Fréttablaðið greindi frá ákærunni á hendur manninum í sumar, en líkt og áður segir er hann grunaður um tilraun til manndráps á móður sinni. Í ofbeldislýsingunum í ákærunni er því lýst að maðurinn hafi slegið móður sína ítrekað með krepptum hnefum í líkama, andlit og höfuð, sparkað í hana og tekið hana ítrekað hálstaki þannig að hún missti meðvitund. Þá er hann jafnframt ákærður fyrir að hóta henni ítrekað lífláti.

Annað brot sem maðurinn er ákærður fyrir varðar kynferðisbrot gagnvart fimmtán ára stúlku, en honum er gefið að sök að hafa kysst hana á hálsinn og reynt að kyssa hana á munninn. Meint atvik átti sér stað í október árið 2020.

Málið hvíli þungt á stúlkunni og því muni ákærði víkja

Manninum er gert að víkja úr dómsal þegar stúlkan gefur skýrslu í málinu. Almenna reglan er sú að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls, en dómari getur látið hann víkja úr þinghaldi á meðan skýrsla er gefin ef dómari telur að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.

Í máli stúlkunnar var vísað til vottorðs sálfræðings en því sagði að „fátt annað komist að í huga hennar en meðferð málsins og að þurfa að bera vitni í dómsal að ákærða viðstöddum. Óttist hún viðbrögð hans við vitnisburði hennar. Málið hvíli þungt á henni og mikil streita og einkenni kvíða og depurðar hafi komið fram í viðtölum og svörum á matslista.“ Þá er vísað til þess að stúlkan sé á barnsaldri.

Móðir mannsins hafði ekki lagt fram vottorð fagaðila með ástæðum fyrir því hvers vegna skýrslutakan gæti orðið sér íþyngjandi.

Grunaður um brot gegn valdstjórninni

Auk þess er maðurinn grunaður um brot gegn valdstjórninni, en hann er ákærður fyrir að hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. Umræddar hótanir eiga að hafa átt sér stað í lögreglubíl sem var á leið frá Hagkaupum í Skeifunni í mars á þessu ári.