Lögreglan í nokkrum kínverskum stórborgum hefur byrjað að skoða síma hjá almennum borgurum til að athuga hvort í þeim séu ólögleg vestræn smáforrit.
Samfélagsmiðlar eins og Twitter, Instagram og Telegram eru ólöglegir í Kína en mótmælendur hafa einmitt notað þessa miðla til að eiga samskipti og skipuleggja mótmæli vegna harðra sóttvarnareglna. Þrátt fyrir að slíkir samfélagsmiðlar og aðrar vestrænar vefsíður á borð við Facebook og YouTube séu bannaðar í Kína hafa netverjar notast við VPN-nettengingar til að komast inn á þær.
Í Sjanghaí stóðu lögreglumenn á Torgi fólksins við aðalverslunargötu borgarinnar og fóru í gegnum síma vegfarenda. Auk þess að leita að ólöglegum smáforritum var fólki einnig skipað að eyða öllum óæskilegum myndum og myndböndum sem tengjast mótmælunum.
William Yang, fréttamaður hjá Deutsche Welle, sagði að verið væri að stöðva vegfarendur af handahófi. „Það getur gerst hvar sem er, annaðhvort úti á götu eða þegar gengið er inn í verslunarmiðstöð,“ sagði Yang.