Alþingi samþykkti í gærkvöldi einróma frumvarp um breytingar á hjúskaparlögum sem snýr hjónaskilnaði sem miðar að því að auðvelda skilnaðarferli fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka síns eða býr á heimili þar sem barn hefur verið beitt ofbeldi.

Fram til þessa hafa þolendur heimilisofbeldis aðeins getað krafist lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng ef maki þeirra hefur gengst við ofbeldinu og samþykkt skilnað á grundvelli þess.

Ekki skipti máli hvort makinn hafi hlotið dóm fyrir ofbeldið sem hann hefur beitt maka sinn. Á þessu verður breyting þegar frumvarpið verður að lögum.

Fá flýtimeðferð á skilnaði

Þolendur munu geta krafist lögskilnaðar ef maki gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir það, fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu sem staðfesta útkall vegna heimilisofbeldis, önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans eða heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefur af öðrum ástæðum tilefni til að ætla að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu hins.

Þá munu þolendur eiga rétt á sérstakri flýtimeðferð þegar skilnaðar er krafist vegna heimilisofbeldis.

Endurflutt í upphafi árs

Frumvarpið var fyrst lagt frá árið 2019 af Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar, en náði ekki fram að ganga.

Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingflokksformaður Viðreisnar, endurflutti málið í upphafi árs og var það samþykkt einróma í gærkvöldi. Í tilkynningu frá Viðreisn er haft eftir Hönnu Katrínu að langþráðar úrbætur á hjúskaparlögum séu nú lok í höfn. Viðreisn sé stolt af málinu og þakklát fyrir stuðninginn.

Líkt og fyrr segir var málið samþykkt einróma 54 þingmenn kusu með frumvarpinu og níu voru fjarverandi í gærkvöldi.