Verkefnið endurspeglar hversu dýrmætt það er að hafa stuðning og eiga sterkar fyrirmyndir,“ segir listakonan Júlía Brekkan sem stendur að baki vefversluninni Fyrirmynd sem selur sérútbúin veggspjöld með grafískum teikningum af íslenskum kvenfyrirmyndum. „Íslendingar eiga svo margar sterkar fyrirmyndir sem birtast okkur daglega í svo mörgum myndum og er vert að minna á.“

Konurnar á veggspjöldum Júlíu eru tíu talsins og koma frá ólíkum geirum samfélagsins. Þar má meðal annars nefna Ölmu Möller landlækni, Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu og Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. „Ég gerði óformlega könnun áður en ég fór af stað með verkefnið og þar komu ótal nöfn fram. Þær sem komu oftast fyrir urðu fyrir valinu á veggspjöldunum, og við reyndum að velja konur frá ólíkum sviðum samfélagsins.“

Alma Möller landlæknir er ein fyrirmyndanna.
Júlía Brekkan

Júlía segir Fyrirmynd hafa fengið sterkar viðtökur, einna helst frá konum. „Það finnst mörgum þetta vera kjörin áminning, þá sérstaklega fyrir yngri stelpur, um þær sterku kvenfyrirmyndir sem er að finna allt í kringum þær.“ Þá hefur Júlía einnig haft samband við fyrirmyndirnar sjálfar sem hafa tekið verkefninu fagnandi.Veggspjöldin eru fáanleg í þremur litum, hvítum, svörtum og bleikum, en hluti ágóða af sölu þeirra síðastnefndu rennur til krabbameins­átaksins Bleiku slaufunnar.

„Krabbameinsstöðin var mjög opin fyrir verkefninu og þau vildu endilega vera hluti af því,“ segir Júlía. „Bleika slaufan er mjög mikilvægt starf sem er vert að leggja lið á einn eða annan hátt.“

Júlía er ekki grafískur hönnuður að mennt en lauk BA-námi við arkitektúr í Listaháskóla Íslands. „Ég hef verið að mála frá því að ég var ung og ætlaði alltaf að verða annaðhvort arkitekt eða grafískur hönnuður.“

Auk Fyrirmyndar vinnur Júlía einnig að verkefnum fyrir Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, auk þess sem hún tekur þátt í stóru verkefni á Grænlandi ásamt arkitektum og hönnuðum að því að teikna nýja menningarmiðstöð.Aðspurð um framtíð Fyrirmyndar segist Júlía vilja gera verslunina að jákvæðum stökkpalli fyrir íslenskt listafólk. „Við viljum gera þetta að vettvangi fyrir sölu á íslenskri hönnun þar sem upprennandi hönnuðir og listafólk getur komið sér á framfæri.“