Lyfjastofnun segir kynningu á ávísunarskyldum lyfjum sé einungis heimilt að beina til heilbrigðisstarfsmanna og því verður stofnunin að bregðast skjótt við þegar ávísunarskyld lyf eru auglýst eða kynnt á opinberum vettvangi eins og á Facebook.

Tilefnið eru tvær færslur Guðmundar Karls Snæbjörnssonar, sérfræðings í heimilislækningum á miðlinum sem stofnunin telur brjóta í bága við lög um auglýsingar eða kynningar á ávísunarskyldum lyfjum. Guðmundur þurfti að að fjarlægja að kröfu Lyfjastofnunar tvær færslur þar sem metið var sem svo að hann auglýsti lyfið Ivermectin sem er lyfseðilskylt.

Guðmundur Karl hefur fjallað mikið um Ivermectin og mælt með því sem bæði lyfi við Covid-19 veikindum og sem forvörn við vírusnum og birt ýmsar skýrslur og umfjallanir sem vísa í niðurstöður vísindamanna, t.d. í Bandaríkjunum og Ástralíu.

"Lyfjastofnun hefur ekki gert neinar efnislegar athugsemdir eða lagt neitt mat á aðra umfjöllun um Ivermectin á Facebook síðunni “Kalli Snæ” sem brýtur ekki í bága við reglugerð um lyfjaauglýsingar", segir í svari stofnunarinnar.