Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir aðalatriði dagsins vera þá staðreynd að héraðsdómur hafi gert Eflingu að afhenda atkvæðaskrá sína. Vonbrigði séu að það muni koma til verkfalla.
Þetta segir Halldór í samtali við Fréttablaðið í kjölfar þeirra tíðinda að Félagsdómur meti verkfallsboðanir Eflingar lögmætar. Það þýðir að verkföll munu hefjast á sjö hótelum Íslandshótela á morgun á hádegi.
Halldór segir aðalatriði vera ákvörðun héraðsdóms frá því í morgun. „Það þýðir að atkvæðagreiðslan mun fara fram um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Það er það sem forrysta Eflingar óttast mest af öllu enda er forrustan á harðahlaupum undan eigin félagsmönnum.“
Halldór segir mikil vonbrigði að það muni koma til verkfalla. „En ég hegg hinsvegar eftir því að dómurinn er klofinn í herðar niður í afstöðu sinni,“ segir Halldór en tveir dómarar skiluðu séráliti og vildu dæma SA í vil og verkföll ólögmæt.
„Það þarf ekki að taka fram að ég er sammála þeirra mati. En meirihluti dómsins, þar með talið dómari sem skipaður er af Alþýðusambandi Íslands kemst að gagnstæðri niðurstöðu og það er óheppilegt að mínum dómi.“
Aðspurður út í framhaldið segir Halldór að hann telji fulljóst að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara muni fara fram.
„Ég geri ráð fyrir því að félagsfólk Eflingar muni hafna sýn forrystu Eflingar í þeirri atkvæðagreiðslu og samþykkja þá miðlunartillögu. Þannig ég geri ráð fyrir því að verkföllin verði skammvinn, hafi lítil áhrif og í raun allra tap að þau fari fram yfirhöfuð og ég hefði talið heppilegast að forrysta Eflingar sæi sóma sinn að fresta verkföllunum þar sem dæmt var í morgun af héraðsdómi að þau þurfi að afhenda félagaskrá sína.“