Fólk sem var á leið frá Reykja­vík til norðan­verðra Vest­fjarða fannst heilt á húfi í bif­reið sinni á Kolla­fjarðar­heiði í gær­kvöldi.

Lög­reglu barst til­kynning í gær um að fólkið hefði ekki skilað sér á á­fanga­stað og ekki hefði heyrst frá því síðan síð­degis á föstu­dag. Þá var fólkið á leið vestur en ekki lá fyrir hvar fólkið var þá statt á leiðinni.

„Þar sem svo langur tími var liðinn frá því síðast heyrðist af fólkinu og ekkert til þess spurst síðan, var hafist handa við að nálgast upp­lýsingar um það svæði sem lík­legast mátti telja fólkið á þegar það var síðast í síma­sam­bandi,“ segir í til­kynningu sem Lög­reglan á Vest­fjörðum birti á Face­book-síðu sinni í morgun.

Í fram­haldi af því var á­hersla lögð á að leita fólksins í ná­grenni þjóð­vegarins á svæðinu frá Bjarka­lundi að Flóka­lundi, en einnig á Dynjandis­heiði, sem og Þorska­fjarðar­heiði og Kolla­fjarðar­heiði.

Í skeyti lög­reglu kemur fram að björgunar­sveitir frá Pat­reks­firði, Tálkna­firði, Bíldu­dal, Þing­eyri og Hólma­vík hafi verið kallaðar út sem og þyrla Land­helgis­gæslunnar, TF-GNA. Þá tóku lög­reglu­menn frá Pat­reks­firði, Hólma­vík og Ísa­firði einnig þátt í leitinni.

Það var svo rétt fyrir klukkan 21 í gær­kvöldi að björgunar­sveitin Dag­renning á Hólma­vík til­kynnti að hún hefði fundið fólkið í bif­reið sinni á Kolla­fjarðar­heiði, heilt á húfi. Fólkinu var komið niður af heiðinni og til læknis­skoðunar á Hólma­vík.

„Mjög slæmt veður var á vett­vangi um helgina og ekkert far­síma­sam­band. Miðað við að­stæður gerði fólkið það eina rétta í stöðunni, að fara ekki úr bif­reiðinni. Það má sterk­lega telja það megin­á­stæðu þess að málið fór eins vel og raun bara vitni. Lög­reglan á Vest­fjörðum vill þakka björgunar­sveitum á svæðinu og Land­helgis­gæslunni fyrir þeirra mikil­vægu verk í þessari leit.“