Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stefnt að því fullum fetum að landamæraskimun muni halda áfram með óbreyttu sniði á þriðjudag. Áfram verði hægt að skima allt að tvö þúsund einstaklinga.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gat út í gær að fyrirtækið myndi hætta aðkomu sinni að landamæraskimun stjórnvalda eftir næsta mánudag.

Katrín sagði í kvöldfréttum RÚV í kvöld að hún hafi óskað eftir því við Landspítalann að stjórnendur þar flýti áætlunum um að auka getu veiru- og sýklafræðideildarinnar til að bregðast við þessu.

Að hennar sögn gerðu stjórnvöld ráð fyrir því að það fyrirkomulag skimunar sem hafi verið við lýði gæti haldist út júlímánuð.

„En eins og ég hef sagt líka þá höfum við skilning á því að þetta er ekki varanlegt fyrirkomulag og við erum þá bara að flýta okkar áætlunum þannig að þetta megi ganga óbreytt fyrir sig.“

Katrín sagði að Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hafi fullvissað sig um að allt yrði gert til að það mætti ganga upp.

Sagði útilokað að spítalinn gæti tekið strax við

Þrátt fyrir þetta var haft eftir Maríönnu Garðarsdóttur, forstöðumanni rannsóknarþjónustu Landspítalans, í hádegisfréttum RÚV í dag að útilokað væri fyrir spítalann að taka við allri sýnatökunni næsta þriðjudag.

Mest gæti Landspítalinn nú greint nokkur hundruð sýni á sólarhring en Íslensk erfðagreining hefur greint hátt í tvö þúsund sýni á sólarhring.

Í samtali við Fréttablaðið í dag sagði Karl Gústaf Kristins­son, yfir­læknir sýkla- og veiru­fræði­deildar Landspítalans, að unnið væri hörðum höndum að því að undirbúa yfirtöku verkefnisins.

Þó væri bið eftir tækjum sem þurfi til að auka af­kasta­getu deildarinnar til greininga vegna mikillar eftirspurnar eftir þeim á heimsvísu.