Húsleit var gerð heima hjá byssusmiðnum og -salanum Guðjóni Valdimarssyni í tengslum við rannsókn lögreglunnar á ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum í gær. Guðjón er faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og vegna tengsla hans við málið hefur hún nú sagt sig frá rannsókn þess vegna vanhæfis.

Samkvæmt frétt RÚV kom nafn Guðjóns upp við skýrslutökur lögreglu yfir sakborningum, sem lögregla handtók á þriðjudaginn í síðustu viku. Í kjölfarið var farið fram á húsleit heima hjá Guðjóni, sem er þekktur byssusali sem heldur uppi sölusíðunni vopnasalinn.net. Guðjón er með safnaleyfi og er sagður eiga gríðarstórt byssusafn sem inniheldur meðal annars vopn sem eru ólögleg nema sem sýnigripir á safni.

Ekki hefur verið upplýst um það hver hugsanleg tengsl Guðjóns við málið eru. Fyrir liggur að flest vopnin sem gerð voru upptæk af hinum grunuðu í málinu voru löglega keypt og skráð á Íslandi. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að alls hafi verið gerðar sautján húsleitir vegna málsins.