12 ára gömul stúlka skaut faðir sinn til bana og síðan sig sjálfa eftir að hafa gert samning við vin­konu sína um að myrða fjöl­skyldur þeirra og gælu­dýr þeirra í Texas í Banda­ríkjunum.

Banda­rísk lög­reglu­yfir­völd segja að stúlkan hafi fundist með skot­sár á höfði fyrir utan heimili sitt í We­at­her­ford borg rétt fyrir utan Dallas í norð­austur­hluta Texas. Þá fannst 38 ára gamall faðir hennar inni í húsinu með skot­sár í kviði.

Lög­regla telur stúlkuna hafa skotið föður sinn og svo sjálfa sig fyrir utan heimilið. Bendir rann­sókn lög­reglunnar til þess að stelpan hafi planað morðið um nokkurra vikna skeið, að því er Sky frétta­stöðin full­yrðir.

Hún hafði verið í sam­skiptum við stúlku í ná­granna­borg að nafni Luf­kin. Sú stúlka hafði einnig skipu­lagt morð á föður sínum en lét ekki af því verða.

Átti fyrr­nefnda stúlkan að keyra frá We­at­her­ford til Luf­kin og sækja hina stúlkuna og hugðust þær svo flýja saman til Georgíu ríkis. Verður stúlkan sem býr í Luf­kin sótt til saka fyrir skipu­lagningu morðs, að því er segir í frétt Sky.

Félagasamtök á borð við Pieta og Geðhjálp geta veitt mikilvægan stuðning og er hjálparsími Pieta, s. 552-2218 alltaf opinn, sömuleiðis Hjálparsími Rauða krossins, 1717 og netspjallið 1717.is. Sorgarmiðstöð, s. 551 4141 sinnir stuðningi við aðstandendur og Heilsugæslan getur jafnframt veitt aðstoð.