Í gær var framið valda­rán í Mjanmar þar sem herinn steypti lýð­ræðis­lega kjörinni stjórn landsins af stóli. Þegar valda­ránið hófst var kona nokkur að taka upp mynd­skeið af sér að gera leik­fimi­æfingar þar sem bíla­lest hersins sést í bakg­runni á leið sinni til þing­húss landsins.

Í gærmorgun lét herinn í Mjanmar til skarar skríða gegn stjórn landsins, leiddri af forsætisráðherranum Aung San Suu Kyi. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1991 fyrir áratuga langa baráttu sína fyrir lýðræði í landinu, sem hefur verið undir stjórn hersins nánast frá því að það hlaut sjálfstæði frá Bretlandi árið 1948. Hún varð forsætisráðherra eftir þingkosningar árið 2015 þar sem flokkur hennar vann sannfærandi sigur. Kosningar fóru fram í nóvember í fyrra þar sem flokkur Suu Kyi hlaut 396 sæti af 476 og flokkur hersins einungis 33 sæti. Herinn neitaði að viðurkenna úrslit kosninganna og sagði brögð hafa verið í tafli.

Herinn handtók Suu Kyi og fleiri háttsetta stjórnmálamenn, þar á meðal forseta landsins Win Myint ásamt hundruðum annarra. Auk þess hafa rithöfundar og baráttufólk verið tekið höndum. Lítið er vitað um afdrif Suu Kyi en samkvæmt heimildum Financial Times er hún í stofufangelsi í höfuðborginni Naypyidaw.

Aung San Suu Kyi.
Fréttablaðið/EPA

Bandaríkin, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt valdaránið, ásamt fjölda annarra ríkja og stofnanna. Öryggisráð SÞ fundar á lokuðum fundi á fimmtudag um ástandið í Mjanmar.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt að refsiaðgerðum verði hugsanlega beitt gegn herforingjastjórninni í Mjanmar. Hann segir aðgerðir hersins árás gegn lýðræðinu og ábyrgðarmenn valdaránsins verði látnir svara fyrir framgöngu sína. Biden lýsti því yfir í gær að stjórn hans myndi starfa með bandamönnum á svæðinu og um heim allan til að styðja við endurreisn lýðræðis í Mjanmar. Á undanförnum árum hafa Bandaríkin aflétt ýmsum viðskiptaþvingunum á her og stjórnvöld í Mjanmar sem og refsiaðgerðum gegn háttsettum meðlimum hersins með það fyrir augum að styðja við lýðræðisumbætur. Til umræðu er í Washington að koma viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum á að nýju.

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Fréttablaðið/EPA

Bandaríkin hafa hins vegar lítil áhrif í landinu og viðskipti milli ríkjanna er afar takmörkuð. Stjórnvöld í Kína, einu helsta viðskiptaríki Mjanmar, hafa lítið tjáð sig um valdaránið. Samkvæmt Wall Street Journal er hætt við að beiti Bandaríkin herforingjastjórnina refsiaðgerðum muni það auka enn áhrif Kínverja í landinu.

Hershöfðinginn Min Aung Hlaing.
Fréttablaðið/EPA

Yfir­maður hers Mjanmar, hers­höfðinginn Min Aung Hla­ing, fer nú með völd í landinu og leitast við að sann­færa heims­byggðina um að allt sé með kyrrum kjörum þar þrátt fyrir valda­ránið. Herinn hefur rétt­lætt að­gerðir sínar með vísun í stjórnar­skrá landsins sem herinn segir heimila honum að lýsa yfir neyðar­á­standi og taka í Mjanmar völdin í sínar hendur. Sam­kvæmt hernum verður neyðar­á­standið í gild í ár. Stjórnar­skráin heimilar hins vegar einungis að lýst sé yfir neyðar­á­standi af sitjandi for­seta, eftir sam­ráð við öryggis­ráð landsins. Það var hins vegar ekki gert.

Að­gerðir hersins voru þaul­skipu­lagðar, hermenn tóku yfir helstu inn­viði landsins og lokað var á sjón­varps­út­setningar allra stöðva nema sjónvarpsstöð hersins. Öll flug­um­ferð, bæði innan­lands og utan var stöðvuð, kaup­höll landsins lokað sem og bönkum. Langar raðir mynduðust við hrað­banka eftir valda­ránið þar sem í­búar Mjanmar freistuðu þess að taka út reiðu­fé. Auk þess var mikil ör­tröð í matvöruverslunum víða um landið.

Röð fyrir utan hraðbanka í borginni Yangon.
Fréttablaðið/EPA