Katarzyna Dudek, sem starfar í Nettó í Mjóddinni, ákvað að taka málin í sínar og hendur og búa til 160 setninga lista fyrir erlent starfsfólk matvöruverslana. Hún vonast til þess að fleiri gagnlegir listar geti litið dagsins ljós og að þeir verði aðgengilegir á netinu.

„Mig langaði til að búa til námsgagn fyrir sjálfa mig og aðra starfsmenn. Margir starfsmenn eiga erfitt með íslenskuna,“ segir Katarzyna sem flutti til landsins fyrir fimm árum síðan.

Hún vinnur á næturvöktum í Nettó, aðallega með öðrum innflytjendum. Að tala íslensku við viðskiptavinina er afar krefjandi en verkefni sem hún vill leysa.

Katarzyna, sem kemur frá Póllandi, hefur klárað tvö stig í íslenskunámi fyrir útlendinga. Hún segir að það dugi ekki til þess að hún sé örugg að tala við viðskiptavinina. Ritmál sé allt öðruvísi en talmál og námið sé ekki miðað við ákveðnar atvinnugreinar. „Í íslenskunáminu lærum við setningar eins og „vasinn er blár“ sem gagnast okkur lítið í vinnunni,“ segir hún.

Með Katarzynu vinnur fólk frá Evrópu, Asíu, Afríku og Ameríku. Þau tala ensku sín á milli, sem Katarzyna segir að sé nauðsynlegt að þau fái tækifæri til að gera. Hins vegar hamli það því að þau læri íslenskuna hratt.

Henni finnst mikilvægt að innflytjendur læri íslensku og noti hana í vinnunni. Þá finni þeir fyrir því að þeir séu hluti af samfélaginu og njóti verunnar betur. Íslendingar kunni líka að meta það að innflytjendur læri málið og viðmótið verður betra.

Katarzyna segir að sumir viðskiptavinirnir séu mjög vinsamlegir og hafi hjálpað henni við þýðingar á orðum. Meðal annars ein kona sem hafi hjálpað henni oft.

„Margt fólk kemur aðeins til að versla og ég vill ekki tefja það,“ segir Katarzyna. En hún vann listann sinn með hjálp frá viðskiptavinum og öðrum starfsmönnum verslunarinnar.

„Listinn dugar mér til þess að bjarga mér á vinnustaðnum,“ segir Katarzyna sem vill koma honum víðar og hefur fengið jákvæð viðbrögð frá starfsfólki annarra verslana. Hún vonar að aðrir geti hjálpað sér við að búa til lista fyrir aðra vinnustaði. Svo sem byggingariðnað, þrifafyrirtæki og fleiri greinar sem margir innflytjendur vinna við. „Það væri æðislegt að fá vefsíðu sem væri ókeypis og hægt væri að fá allar þessar upplýsingar,“ segir hún.

Katarzyna sem er 32 ára kom til landsins með kærastanum, Pyotr, til að ferðast en þau ílengdust og byrjuðu að vinna. Katarzyna vann til að mynda á tjaldstæði. Eftir eitt ár keyptu þau bíl og eftir þrjú ár keyptu þau íbúð. „Það var stór ákvörðun,“ segir hún. „En okkur langar til að vera hérna í langan tíma.“