Dr. Helga Sif Frið­jóns­dóttir hefur verið ráðin til þess að annast heildar­út­tekt á þjónustu­ferlum, hug­mynda­fræði, inni­haldi og gæðum heil­brigðis­þjónustu við ein­stak­linga með vímu­efna­sjúk­dóma sem heil­brigðis­ráð­herra hefur á­kveðið að ráðast í.

Helga Sif er deildar­stjóri göngu­deildar geð­deildar. Helga Sif var um ára­mótin sæmd fálka­orðunni fyrir braut­ryðj­enda­störf á vett­vangi skaða­minnkunar fyrir fíkni­efna­neyt­endur og aðra jaðar­setta hópa. Hún situr í stjórn Rauða kross Ís­lands og hóf störf sín í Konu­koti og var áður í for­svari fyrir Frú Ragn­heiði.

Í til­kynningu frá ráðu­neytinu kemur fram að einnig verða skoðaðir mögu­leikar á frekari sam­hæfingu heil­brigðis­þjónustu og fé­lags­legrar þjónustu, einkum með til­liti til endur­hæfingar, bú­setu­úr­ræða og stuðnings­með­ferðar fyrir ein­stak­linga í bata­ferli.

Í til­kynningu ráðu­neytisins kemur fram að ekki hafi enn tekist að stíga nauð­syn­leg skref í sam­þættingu heil­brigðis- og fé­lags­legrar þjónustu sem myndi byggjast á þeirri hug­mynda­fræði fíkni­fræða að vímu­efna­vandi hafi lífs­ál­fé­lags­legar or­sakir og því árangurs­ríkast að sam­þætta og veita heild­ræna vel­ferðar­þjónustu og eftir­fylgd fyrir fólk með vímu­efna­sjúk­dóm.

Brýnt að móta stefnu til framtíðar

Þá segir að brýnt sé að móta stefnu til fram­tíðar í þessum mála­flokki með heild­stæðum til­lögum um sam­þættingu og sam­vinnu fyrsta-, annars- og þriðja stigs heil­brigðis­þjónustu þar sem jafn­framt yrði skoðaður fýsi­leiki þess að sam­þætta heil­brigðis- og fé­lags­lega þjónustu gagn­vart not­endum.

„For­senda nýrrar stefnu­mótunar er heildar­út­tekt á nú­verandi þjónustu­ferlum, hug­mynda­fræði, inni­haldi og gæðum heil­brigðis­þjónustu við fólk með vímu­efna­sjúk­dóm. Einnig þarf að skoða hvar nú­verandi heil­brigðis­þjónusta byggir á gagn­reyndri þekkingu/klínískum leið­beiningum og hvar eru brota­lamir hvað þetta varðar. Við út­tektina verða rýndar fjórar megin­víddir, þ.e. 1) árangur þjónustu­veit­enda, 2) þjónustu­ferli innan stofnana og á milli stofnana, 3) hug­mynda­fræði að baki þjónustu við­komandi stofnana og 4) inni­hald veittar þjónustu. Að auki verður skoðað hvort og hvernig til­teknir hópar hafa á­kveðnar sér­tækar þarfir m.t.t. þessarar þjónustu, t.d. karlar og konur eða ó­líkir aldurs­hópar,“ segir í til­kynningunni og að við út­tektina verið beitt svo­kallaðri Bench­marking best practice að­ferðar­fræði sem nýtist vel til að greina hvaða eigin­leikar stofnana/þjónustu­veit­enda leiða til há­marks­árangurs og einnig til að greina kosti og ó­kosti nú­verandi þjónustu­kerfis og meta hvaða at­riði þarf að færa til betri vegar.

Þjónustan þarf að ná til jaðarsettra hópa

Í til­kynningu ráðu­neytisins kemur fram einnig að em­bætti land­læknis hafi á liðnu ári gefið út saman­tekt um að­gengi að heil­brigðis­þjónustu vegna notkunar á­fengis og vímu­efna. Saman­tektin, sem byggir á gögnum frá heil­brigðis­stofnunum, undir­strikar fyrst og fremst mikil­vægi sam­ræmingar í skráningu, við­miða og verk­lagi þegar kemur að með­ferð við á­fengis- og vímu­efna­vanda. Þá er einnig vísað til við­miða frá Sam­einuðu þjóðunum þar sem lögð er á­hersla á að með­ferð þurfi að fela í sér þjónustu sem er í boði úti í sam­fé­laginu og nær til jaðar­settra hópa. Þar er sér­stak­lega bent á skimun, stutt inn­grip göngu­deilda, dag­deilda og inn­lagna, læknis­fræði­leg og sál­fé­lags­leg úr­ræði, lang­tíma­bú­setu­úr­ræði, endur­hæfingu og stuðnings­með­ferð fyrir ein­stak­linga í bata­ferli.

Ein af til­lögum em­bættis land­læknis er að stefna í á­fengis- og vímu­vörnum verði endur­skoðuð og gildi til ársins 2030 og að stefnunni fylgi tíma­sett að­gerða­á­ætlun sem taki meðal annars til heild­stæðra við­miða og al­þjóð­legra staðla um þjónustu og með­ferð á sviði á­fengis- og vímu­nefna­með­ferðar.

Þá er í til­kynningunni farið yfir þjónustuna eins og hún er núna hér á landi en á­fengis- og vímu­efna­með­ferð er að stórum hluta veitt af frjálsum fé­laga­sam­tökum en þjónustan fjár­mögnuð að stærstum hluta af hinu opin­bera.

Þá segir að Sam­tök á­huga­fólks um á­fengis- og vímu­efna­vanda (SÁÁ) hafi verið leiðandi í þróun hug­mynda­fræði og með­ferðar á þessu sviði en að­koma opin­berra heil­brigðis­stofnana hafi verið tak­mörkuð hvað þetta varðar. Hluti þjónustu við þennan hóp er veittur af stofnunum og með­ferðar­úr­ræðum sem heyra undir fé­lags­mála­ráðu­neytið.